Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu um tillögu okkar Viðreisnar og hún snýr nákvæmlega að lokaorðum hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar varðandi það að við þurfum að meta þetta sjálf. Út á það gengur tillagan, að það verði framkvæmt hér að við metum þörf okkar til viðbótar við það sem við höfum nú þegar varðandi varnar- og öryggismál, þannig að það er alveg hárrétt sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson segir, við þurfum að geta metið þetta sjálf. Það þýðir það að mínu mati líka að við eigum að gera það, tillagan gengur út á það og við megum ekki vera þannig að við útilokum eitt eða neitt frá því borði sem getur hugsanlega nýst til að styrkja varnir og öryggi okkar Íslendinga í m.a. víðu samhengi. Ég vil undirstrika það að hefðbundin mörk milli innra og ytra öryggis eru að verða sífellt óljósari eftir því sem áskoranir á sviði öryggismála verða fleiri og fjölbreyttari, eins og við þekkjum, og umræðan í gær um fjölþáttaógnir var einmitt ágætt dæmi um það. Þetta fæst ekki slitið í sundur í dag í þessum breytta heimi þegar meta þarf og bregðast við þeim þverþjóðlegu ógnum sem nútímaríki standa frammi fyrir. Þess vegna erum við að segja að aðild að bæði NATO og ESB skipti máli fyrir öryggishagsmuni Íslands, ekki síst núna þegar við þurfum að mínu mati bæði belti og axlabönd og ég vona að við getum verið sammála um það. Við erum sem herlaus þjóð, og við ætlum okkur að vera herlaus þjóð áfram, algerlega upp á það komin að alþjóðakerfið virki sem skyldi og að alþjóðareglur séu virtar. Við eigum allt öryggi okkar t.d. í landhelginni undir því að alþjóðahafréttarsáttmálinn virki, að alþjóðareglur virki. Lífsgæði okkar og lífsafkoma í stóra samhenginu er háð því að alþjóðareglur séu virtar og þær virki bæði fyrir okkur en líka fyrir bandalagsþjóðir okkar.

Fyrir smáríki eins og Ísland skiptir öllu máli þegar kemur að vörnum og öryggi landsins að efla fælingarmátt í vörnum og leita skjóls í stærri bandalögum með stærri þjóðum eins og er að finna innan Evrópusambandsins og líka það að efla enn frekar varnarsamninginn við Bandaríkin til að styrkja verkferla. Varnarsamningurinn er að grunni til eins og við þekkjum frá 1951. Það hafa verið viðbætur við hann, en í þessum breytta heimi er ekki skýrt hvernig við virkjum varnirnar með því að kalla til Bandaríkin ef á okkur er ráðist eða á sæstrengina eða reynt að torvelda samgöngur, allt sem truflar þjóðaröryggi okkar. Þeir verkferlar eru ekki nægilega skýrir. Út á þetta gengur m.a. tillagan, að meta það hvaða leiðir eru bestar fyrir okkur, meta það og fara í það að taka samtöl við Bandaríkin til að skerpa á þætti okkar og nálgun og rétti okkar samkvæmt varnarsamningnum.

Ég vil líka draga það fram að við að sama skapi getum, og ég held að það væri einfeldni að útiloka einhverja möguleika á því, verið hugsanlegt skotmark vegna staðsetningar okkar í Norður-Atlantshafi. Sumir munu segja: Bíddu, hvað ertu að meina? En við sjáum alveg að áherslan á Norður-Atlantshaf, á norðurslóðir er að aukast og eftir innrás Rússa, þetta grófa árásarstríð Rússa í Úkraínu, vil ég einfaldlega ekki útiloka eitt eða neitt og við megum ekki gera það, við Íslendingar. Þegar viðbúnaður víða fer vaxandi þá þurfum við að taka varnir okkar til endurskoðunar í stærra samhengi. Ég bið fólk um að hafa það hugfast. Ísland er líka ákveðin ógn í augum annarra ríkja sem frjálslynt lýðræðisríki í alþjóðlegu samstarfi. Í því felst ákveðin ógn, að við erum þessi rödd og við viljum styrkja hana enn frekar og við í Viðreisn viljum hafa hana enn sterkari með því að hafa hana við borðið í Evrópusambandinu. En af hverju segi ég að við getum líka verið ógn í augum annarra ríkja sem þetta frjálslynda lýðræðisríki sem vill byggja á mannréttindum, og gerir það, sem tengjast lýðræði, frelsi og friði? Við sjáum bara viðbrögð rússneskra stjórnvalda í kjölfar þeirra efnahagsaðgerða sem gripið var til af þeirra hálfu vegna innrásarinnar í Úkraínu, bæði þegar Krímskaginn var tekinn á sínum tíma og núna.

Það sem fylgir þessu líka er að við megum ekki vera smeyk við að beita rödd okkar á alþjóðavettvangi, segja það sem við eigum að segja og þurfum að segja til að verja lýðræðið, til að verja frið í heimsálfu okkar og í heiminum öllum. Það þýðir líka að samhliða því að beita rödd okkar þurfum við að nýta þann vettvang og þær aðstæður allar til þess að rödd okkar verði enn sterkari. Hluti af því er að fara í þetta endurmat á varnarhagsmunum okkar, efla varnarsamninginn og sjá til þess að það verði gerðir viðaukar til að styrkja varnir okkar og öryggi en líka það að taka skrefið til fulls til þess að ganga í Evrópusambandið, til að horfa á heiminn allan í þessu stærra samhengi sem allar þjóðir eru að gera í dag, hvernig við víkkum út varnar- og öryggishagsmuni okkar með því að sitja við borðið þegar kemur að loftslagsmálum, þar sem Evrópusambandið er enn og aftur á undan okkur Íslendingum með því að setja metnaðarfull markmið. Það voru fréttir af því í síðustu viku að þau ætluðu að setja sér enn metnaðarfyllri markmið árið 2030 og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að íslenska ríkisstjórnin fylgi í kjölfarið. Ég hefði viljað sjá hana frekar leiða þessa umræðu en hún er ekki að gera það. Þetta er dæmi um það sem er gott við að vera í Evrópusambandinu, hún þrýstir þjóðinni til að taka loftslagsmálin mun alvarlegar heldur en hún hefur gert fram til þessa, líka af hálfu íslenskra stjórnvalda þó að margt hafi verið vel gert. Evrópusambandið skiptir máli fyrir efnahagslega hagsmuni og efnahagslegir hagsmunir hafa svo mikla þýðingu fyrir frið og öryggi og lífshamingju fólks þannig að þeir eru beintengdir varnar- og öryggishagsmunum þjóðarinnar, alveg eins og stofnendur NATO og stofnendur Efnahagsbandalagsins síðan í kjölfarið sáu á sínum tíma. Það var engin tilviljun að Bandaríkjamenn hvöttu einmitt Evrópuþjóðirnar til að stofna Efnahagsbandalagið, forvera Evrópusambandsins, af því að þeir sáu að í gegnum viðskipti, opin landamæri, frjálsan flutning á fólki, viðskiptum, þjónustu o.s.frv. jukust líkur á því að hægt yrði að tryggja frið í álfu þar sem höfðu geisað tvær heimsstyrjaldir og stríð á öldunum þar á undan.

Ég vona að utanríkismálanefnd taki þessa tillögu og ræði hana vel og fái fljótlega til sín gesti. Það er ekki mjög mikið af málum innan utanríkismálanefndar akkúrat þessa stundina og ég vonast til þess að við getum rætt þessa tillögu í þaula og sent út sem fyrst til umsagnar. Það er brýnt að við í þessu víða samhengi ræðum varnar- og öryggishagsmuni Íslendinga og við það á enginn að vera feiminn. Það á heldur ekki að vera nein feimni við að taka allt inn á það borð sem við þurfum að gera til þess að tryggja varnar- og öryggishagsmuni okkar, hvort sem það er NATO, varnarsamningurinn eða í tengslum við Evrópusambandið.