Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

öruggt farsímasamband á þjóðvegum.

46. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Jakob Frímann Magnússon) (Flf):

Herra forseti. Það sem hér er lagt til er sprottið úr sjokki síðasta árs þegar ég ók landið um kring, þá einkum norðausturhluta þess, og skynjaði hversu ótrúlega slitrótt og götótt sambandið er sem maður reiðir sig á þegar ferðast er um þetta land. Guð forði okkur frá því að lenda í óhöppum á vegum úti í slíku sambandi og ná ekki sambandi við neinn sem gæti komið manni til bjargar og aðstoðar í öllum veðrum og við allar aðstæður, á hálum vegum, og dæmin eru mýmörg um það sem gerist á okkar dásamlega en oft og tíðum harðbýla landi.

Því er hér um öryggismál að ræða. En þetta er líka spurning um sjálfsagða innviði nútímasamfélags, auð nútímasamfélags sem lítur á það sem sjálfsagðan hlut að hafa rennandi vatn að reiða sig á, vegi til að aka um landið, brýr til að aka yfir fljótin og rafmagn til að knýja búsáhöldin eða starfsemina, hver sem hún er, hafa ljós að lýsa sig við.

Í kjölfar umræðu um hið ríkisrekna þá gegndi Póstur og sími ákveðnu hlutverki við að halda okkur tengdum, síðan var það ríkisfyrirtæki selt til einkaaðila sem hétu því að grunnnetið myndi hvergi vera látið gossa. En svo fór sem fór og nú eru nokkrir aðilar á markaði sem horfa að sjálfsögðu til þess sem er arðbært, horfa til svæðanna sem eru þannig í sveit sett að hægt sé að græða á því að setja upp sendi og viðhalda þjónustu.

Svo eru fjölmargir staðir á stóra, fámenna eylandinu sem eru ekki hagkvæmir. Eitthvað hefur þokast í því að skylda menn til að samnýta senda og búnað, en það er ansi langt í það. Þetta er hluti af grunnþjónustu og öryggiskerfi og hluti af sjálfsögðum, nútímalegum lífsgæðum að geta ekið um landið, a.m.k. um hringveginn til að byrja með, haldið uppi samræðum, unnið á margra klukkustunda ferðalögum sínum frá einum stað til annars, frá Siglufirði að Djúpavogi og til baka án þess að detta út á nokkurra mínútna fresti. Að endingu treystir maður sér alls ekki til að hafa samband við fólk, maður heldur kannski uppi samræðum í 30 sekúndur og svo er það búið.

Þetta er svo sjálfsagt mál að það er í rauninni sjokkerandi að átta sig á því að þetta skuli ekki vera löngu komið í höfn. Þar er ég Frímann, sem ákvað að gera símann að sínu fyrsta þingmáli. [Hlátur í þingsal.] Ég hefði getað knúið það í gegn vegna þess að viðbrögð félaga minna úr öllum flokkum voru jákvæð, öll á einn veg. Ég hefði getað troðið mér fram fyrir röðina með góðra manna hjálp en ákvað að gera það ekki heldur bera þetta upp á því formi sem það er núna, vitandi að víðtækur stuðningur er við þetta. Okkur finnst þetta öllum vera sjálfsagðasti hlutur í heimi og ég stóla á þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér sitja og sperra eyrnahlemmana eftir hverju orði sem hrýtur af vörum mér, og ég skora á þingmenn Vinstri grænna, Flokks fólksins, Samfylkingar og alla hina fjölmörgu sem hér sitja og hlýða á með athygli [Hlátrasköll í þingsal.] að láta þetta sjálfsagða lífsgæða- og öryggismál vellríka nútímasamfélagsins ganga eftir til nefndar, umræðu og afgreiðslu.