Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

stjórn fiskveiða.

47. mál
[19:05]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er að mörgu leyti mjög áhugaverð samlíking. Takmarkanir á atvinnufrelsi og lög sem takmarka atvinnufrelsi, takmarka t.d. utanlandsferðir, skapa verðmæti. Takmarkanir í lögum geta skapað verðmæti. Takmarkanir í fiskveiðistjórnarkerfinu eða á veiðiheimildum, á veiði, hafa skapað verðmæti sem er kvótinn. Kvótinn er í eðli sínu verðmæti sem eru búin til af löggjafanum. Þú selur veiðiréttinn til annarra. Munurinn hins vegar á hljómsveit og fiskstofnum eða áhorfendum og tónlistarunnendum og svo fiskstofnum er sá að þeir eru ekki í útrýmingarhættu. Fiskstofnarnir voru í útrýmingarhættu þegar kvótakerfið var sett á. Málið er að rannsóknir á fiskstofnum í kringum landið eru bara ekki fullkomnar. Það virðist byggjast á því að fiskstofnar við landið eða hver fiskur — að þetta sé eins og fimm manna fjölskylda, þá stækki stofninn. Það er bara ekki þannig. Þetta er gríðarlegt magn af hrognum sem fiskur splundrar út úr sér við góð skilyrði og ef það er nægt fæði og góð skilyrði í sjónum þá vex stofninn, alveg eins og kolmunnastofninn og fleiri stofnar.

Varðandi tónlistarmennina þá er samkeppni milli tónlistarmanna og hæfileika tónlistarmanna. Það er líka í strandveiðunum. Það er ekkert fyrir alla að veiða. Þetta eru ákveðnir hæfileikar og í strandveiðunum er fólk á mismunandi forsendum. Ég vitna hér í grein fyrrverandi veðurstofustjóra sem er kominn á eftirlaun, að ég held, veðurfræðings. Hann er í þessum veiðum á sínum forsendum. Ég þekki annan fyrir norðan, hann er í öðru starfi líka en stundar þessar veiðar. Strandveiðarnar byggjast á áhuga, getu og hæfileikum. Þetta er ekkert fyrir alla, þetta er erfið vinna að mörgu leyti en mjög skemmtileg. Þetta er líka fyrir t.d. fyrrverandi togarasjómenn og þá sem koma af öðrum bátum. Menn eru í þessu á mjög mismunandi forsendum (Forseti hringir.) og það byggist á hæfileikum alveg eins og í tónlistinni. Menn semja sína músík til sjávar líkt og í hljómleikasölum landsins.