Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

43. mál
[17:46]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að flytja mál sitt af kostgæfni. Þetta verður seint talið til brýnustu mála samfélagsins í dag en engu að síður er engin ástæða til annars en að taka vel undir það. Ef þetta næði fram að ganga myndu kannski opnast möguleikar á því að færa þennan forna sal aðeins að þörfum okkar sem erum vön því í öðrum fundarsölum, þar sem við flytjum ræður okkar, að geta kannski varpað á vegg einhverjum tölum eða sneiðmyndum en litlar undirtektir hafa fengist við slíkum hugmyndum af því að við eigum að þjóna hinu forna húsi frekar en að hið forna hús eigi að þjóna okkur. Á sama hátt hefði ég talið, ef við næðum þessari hugmynd fram, sem ég styð, að hægt væri að spara gríðarlegan tíma ef litlum hljóðnemum yrði komið á borð þingmanna og ráðherra, rétt eins og er nánast í öllum þingum í kringum okkur, svo að fólk þyrfti ekki í hvert skipti sem því liggur eitthvað á hjarta að fara í göngutúr þvert yfir salinn og troðast í gegn. Fólk ýtir einfaldlega á takka, fær sínar tvær mínútur af tíma, eða eina mínútu, og gæti sagt úr sæti sínu það sem því liggur á hjarta og þarf ekki endilega að fara að brölta aftur upp í stólinn. Mjór er mikils vísir: Færum Alþingishúsið til þess vegar sem hér er lagt til og (Forseti hringir.) færum síðan salinn að þeim þörfum sem myndu teljast lágmarksaðstaða fyrir ræðumenn á Íslandi á árinu 2022.