Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

43. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta innlegg og andsvarið. Áður en ég kem efnislega að því þá vil ég aðeins leiðrétta eitt atriði, frú forseti. Mér var bent á það hér, af þeim sem til þekkja, að þessi tillaga ætti heima undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem sú nefnd tekur að sér málefni Alþingis. Ég leiðrétti það hér með og vísa tillögunni þar með til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir þetta ágæta og skemmtilega innlegg sem á vel við í þessari umræðu og ég þakka honum fyrir að styðja þessa tillögu. Ég held að það sé mikilvægt, auk þess að færa Alþingishúsið í upprunalegt horf, og varðveita með því söguna, að komandi kynslóðir og unga fólkið þekki sögu og mannvirki og kennileiti sem bera þeim vitni. Segjum sem svo að það séu kannski grunnskólabörn á gangi hér fyrir framan með kennaranum sínum sem væri að segja þeim frá sögu Alþingishússins, þá eru einmitt þarna merki sem væri hægt að segja frá að væru upprunaleg og hvaða þýðingu þau hefðu haft á sínum tíma. Þetta skiptir allt máli. En ég tek að mörgu leyti undir það sem hv. þingmaður sagði hér um þingsalinn sem slíkan, varðandi ýmis praktísk atriði. Ég veit að hv. þingmaður hefur verið mjög áhugasamur um slíkt frá því að hann var kjörinn á þing og hóf að flytja sín ágætu málefni hér í ræðustóli Alþingis. Það eru praktísk atriði, eins og hljóðnemar úr sæti og annað slíkt, sem gætu örugglega orðið til bóta. Þetta er eitthvað sem ég tel vel þess virði að skoða og fara yfir.