Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 20. nóvember er mannréttindadagur barna og það eru 32 ár síðan barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Vegna barnasáttmálans hafa orðið víðtækar breytingar á viðhorfum til barna og farið að líta á börn sem fullgilda einstaklinga með full réttindi sem ber að virða og vernda með öllum tiltækum leiðum. Á Íslandi eru 10.000 börn sem lifa í eða við fátækt, jafnvel fjöldi þeirra í sárafátækt. Þetta er okkur hér á Alþingi til háborinnar skammar og einnig það að láta þetta viðgangast svo áratugum skiptir. Við erum einnig með þúsundir barna á biðlista eftir lífsnauðsynlegri þjónustu í heilbrigðiskerfinu, látum þau grotna niður á biðlistum árum saman þannig að þau flosna upp úr skólakerfi og í mörgum tilfellum fara á örorku, festast í fátækt þar og í félagslegu kerfi sveitarfélaganna. Fátækar barnafjölskyldna á Íslandi lenda í félagslegri einangrun og þar standa einstæðir foreldrar verst og þá einnig fjölskyldur með lágar tekjur. Fjölskyldur með fötluð börn eru með þeim verst settu og þá einnig oft félagslega einangraðar á örorkubótum og búa þar af leiðandi við mjög erfiðar félagslegar aðstæður. Börn í fátækt eru mun líklegri til að búa áfram í fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fá á engan hátt sömu tækifæri og önnur börn. Ójöfnuður fátæktar er að flytjast á milli kynslóða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Að láta barn að alast upp við sárafátækt er skýlaust brot á mannréttindum þess og getur skaðað það fyrir lífstíð. Stjórnvöldum hvers tíma ber að koma í veg fyrir fátækt barna og fjölskyldna þeirra. Kostnaður við húsnæði er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldna á Íslandi og margar búa við óviðunandi, þröngar, heilsuspillandi aðstæður, húsnæðisskort og jafnvel í ósamþykktu húsnæði. Við þessu þarf að bregðast strax. Barnafjölskyldur og einstæðir öryrkjar á Íslandi eru sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun og þá einnig fjölskyldur með fötluð börn, fjölskyldur þar sem annað foreldrið er á örorkubótum og hitt á lágmarkslaunum og þá einnig börn í fjölskyldum sem búa við mjög erfiðar félagslegar aðstæður.

Munið: Mannréttindi barna í fyrirrúmi og eitt barn í fátækt er einu barni of mikið. Erum við ekki öll hér inni sammála um það?