Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

skaðabótalög.

58. mál
[16:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir framsöguna þar sem hann fór vel yfir þetta mikilvæga mál sem er frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, um að bótafjárhæðir skaðabótalaga breytist í hlutfalli við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Hér er um grundvallarmál að ræða og vert að fara aðeins yfir tilgang skaðabótalaga, sem er hver? Jú, hann er að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni. Það er grundvallaratriði. Fólk verður fyrir tjóni og það þarf að bæta þannig að það verði eins sett og það hefði ekki orðið fyrir tjóni.

Skaðabótalögin miða við lánskjaravísitölu. Hvað er lánskjaravísitala? Saga lánskjaravísitölu er svolítið áhugaverð. Lánskjaravísitala er vísitala sem var í upphafi reiknuð út frá vísitölu neyslu og byggingarvísitölu, þ.e. tveir þriðju framfærsluvísitölunnar voru lagðir saman við einn þriðja af byggingarvísitölunni og þá fékkst út lánskjaravísitalan. Árið 1990 var vísitölunni breytt þannig að þrjár vísitölur giltu jafnt í lánskjaravísitölunni. Það var vísitala neyslu, launavísitala og byggingarvísitala. Þetta var í fimm ár. Svo árið 1995 var vísitölunni breytt aftur þannig að nú fylgir lánskjaravísitala eingöngu vísitölu neyslu. Eins og kemur fram í greinargerðinni, og ég tel mikilvægt að leggja áherslu á, stóð lánskjaravísitalan í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga árið 1993 en stóð í 10.652 stigum í júlí 2022. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 225% frá gildistöku þeirra. Þetta er lánskjaravísitalan. Launavísitalan, sem hér er lagt til að bætur skaðabótalaga miðist við, stóð við gildistöku skaðabótalaga árið 1993 í 131,3 stigum en í júlí 2022 stóð sama vísitala, launavísitalan, í 855,8 stigum. Hún hefur því hækkað um 552% sem er mikið meira, talsvert meira, en lánskjaravísitalan. Við erum að tala um 552% á móti 225%. Launavísitalan hefur hækkað um 552% en lánskjaravísitalan sem miðað er við í lögunum hefur hækkað um 225% þannig að við erum að tala um rúmlega tvöföldun á lánskjaravísitölu en fimmföldun, fimm og hálf-földun ef við getum notað það orð, á launavísitölunni.

Eftir því sem laun hækka umfram verðlag hefur verulega dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni og hefur ekki fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar. Þessir hópar njóta einfaldlega ekki sömu verndar og skaðabótalögin tryggðu við gildistöku, það er svo augljóst mál, þannig að hér er um eðlilega leiðréttingu að ræða. Það er augljóst mál að tilgangi skaðabótalaganna um það að einstaklingur sem verður fyrir tjóni, tjónþoli, verði eins settur og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni, því markmiði er ekki náð. Við verðum að breyta vísitölunni þannig að hún fylgi launavísitölu svo við náum tilgangi skaðabótalaganna. Ég tel að þetta frumvarp sé raunverulega mjög mikilvægt og raunverulega þess eðlis að við ættum að fallast á það að ná upphaflegum tilgangi skaðabótalaga þar sem núverandi vísitala, lánskjaravísitalan, er ekki að ná því.

Ég vænti þess að þingheimur samþykki þessa breytingu og ég skil ekki rökin fyrir því af hverju ekki er búið að samþykkja það að miða við launavísitölu í stað lánskjaravísitölu. Það eru greinilega einhverjir aðrir hagsmunir, hvort það séu hagsmunir tryggingafélaga eða eitthvað slíkt — en a.m.k. er alveg klárt mál að fólkið sem verður fyrir líkamstjóni, þar á meðal ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar, ber skarðan hlut frá borði. Hérna er um mikið réttlætismál að ræða og ég trúi ekki öðru en að þetta fái góða umfjöllun í nefnd og komist til 2. umr. Þetta er mjög mikilvægt atriði og ég vil benda á að það eru 29 ár síðan skaðabótalögin voru samþykkt, 30 ár á næsta ári. Við skulum halda upp á 30 ára afmælið með því að miða bætur við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu.