Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

skaðabótalög.

58. mál
[16:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem gefur mér tækifæri til að koma aftur í ræðustól og færa enn betri rök fyrir máli mínu um að við eigum frekar að miða við launavísitölu en lánskjaravísitölu. Ég rakti aðeins sögu lánskjaravísitölunnar. Frá 1995 var henni breytt þannig að hún fylgir eingöngu vísitölu neyslu og hún hefur hækkað um 225% á gildistíma laganna síðustu 29 ár. Hins vegar hefur launavísitalan hækkað um 552%. Fyrir 29 árum voru lífskjör verri á Íslandi en í dag. Það hefur verið hagvöxtur ár eftir ár þannig að lífskjörin eru mun betri. Ef við förum 29 ár til baka þá var minni kaupmáttur. Lífskjör hafa batnað. Þegar við miðum þessar bætur eingöngu við lánskjaravísitölu þá erum við eiginlega að segja við fólkið sem verður fyrir tjóni: Þið eigið að hafa sömu lífskjör og voru fyrir 29 árum þó svo að allir aðrir í dag árið 2022 hafi notið góðs af lífskjarabatanum á þessum 29 árum. Það er alveg óásættanlegt að við séum með ákveðinn hóp fólks sem verður fyrir tjóni og skaðabæturnar ná ekki tilgangi sínum. Hann verður ekki eins settur og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni ef verið er að miða við lífskjör fyrir 29 árum. Það er óásættanlegt, tel ég. Þess vegna er svo mikilvægt að miða við launavísitölu af því að kaupmáttur launa hefur aukist á þessum 29 árum. Það er verið að láta ákveðinn hóp fólks hafa lífskjör 29 ár aftur í tímann. Þess vegna eigum við að miða við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Það er munurinn. Það er það sem mér finnst svo mikilvægt. Við þurfum að miða þetta við tímann í dag en ekki festast í lánskjaravísitölu sem er bara miðuð við neysluna. Það eru lífskjörin sem skipta máli.