Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

skaðabótalög.

58. mál
[16:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Þú ert vinnandi einstaklingur með milljón á mánuði og verður fyrir tjóni, missir getuna til tekjuöflunar. Þú býrð við ákveðin lífskjör sem miðast við eina milljón á mánuði og þá er að sjálfsögðu rétt að miða þær bætur við það, miða við launavísitölu. Launavísitala er meðaltal og eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni en hefur ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag.“

Hverjir eru þetta? Þetta eru ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar. Við miðum við laun en svo þegar kemur að hækkun þeirra þá miðum við við lánskjaravísitölu, sem er vísitala neyslu. Að sjálfsögðu þurfum við að miða við hækkun á launavísitölu af því að það er miðað við laun í upphafi. Við miðum í upphafi við laun en svo hoppum við yfir í aðra vísitölu. Það gengur að sjálfsögðu ekki, það er ósamræmi milli viðmiðsins í upphafi og vísitölunnar sem fylgir launaþróun. Það er það sem þarf að miða við. Það miðast við kaupgetu, það er grundvallaratriði. Eins og ég segi þá held ég að lánskjaravísitala, bara hugtakið lánskjaravísitala, eigi ekki einu sinni heima þarna, það ætti að miða við vísitölu neyslu. Lánskjaravísitalan sýnir krukkið í þessu sem hefur átt sér stað frá 1993 og það að nota orðið lánskjaravísitala er algjörlega úrelt, þetta er vísitala neyslu. Það á að miða við launin, tekjuöflunina. Tekjuhæfileikar þínir eru skertir vegna tjóns og það á að miða við launavísitölu. Hún miðast við getuna til að afla tekna, ekki það sem þú neytir, ekki við neysluvísitölu. (Forseti hringir.) Þannig að mér finnst það svo sjálfsagt mál að það hálfa væri nóg og ég vona að þetta verði að lögum sem allra fyrst.