Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með hæstv. fjármálaráðherra í morgun kom fram að ráðherrann gat ekki sagt með neinni vissu hvort þeir erlendu aðilar sem tóku þátt í sölumeðferð á hlut ríkisins í Íslandsbanka væru raunverulegir erlendir aðilar en ekki innlendir aðilar að notfæra sér erlenda aðila, jafnvel aðilar nátengdir útboðinu. Þá gat hann heldur ekki fullyrt hvort þessir sömu aðilar hefðu keypt hlutinn fyrir eigið fé og væru ekki fjármagnaðir af Íslandsbanka sjálfum eða öðrum bönkum á Íslandi. Reyndar skildi hæstv. ráðherra bara ekkert í því hvers vegna þetta ætti að skipta nokkru einasta máli, en auðvitað skiptir þetta öllu máli.

Í fyrsta lagi skiptir máli að vera viss um að aðilar nátengdir sölunni hafi ekki farið fram hjá vanhæfisreglum með því að nota milliliði til að kaupa fyrir sig hluti í bankanum. Í öðru lagi skiptir máli að það sé alveg öruggt að innlendir aðilar hafi keypt hlutinn fyrir eigið fé en séu ekki fjármagnaðir af Íslandsbanka sjálfum eða öðrum bönkum á Íslandi, vegna þess að ef svo væri myndi slíkt auðvitað veikja eigið fé bankanna á Íslandi eins og gerðist í fyrra einkavæðingarferli, ósælla minninga. Í þriðja lagi skiptir það máli vegna þess að þessir erlendu aðilar, sem ráðherra er svo stoltur yfir að hafa fengið til að taka þátt í útboðinu, höfðu úrslitavald um ákvörðun á verði hlutanna í útboðinu, úrslitavald um þetta margrædda 117 kr. verð á hlut.

Forseti. Síðast þegar rannsóknarnefnd Alþingis var skipuð til að varpa ljósi á bankasölu var það gert um 14 árum eftir að salan gekk í gegn. Þá hafði Ríkisendurskoðun skoðað sömu bankasölu tvisvar. Þá kom í ljós að erlendur aðili var í raun og sann innlendur aðili. Við verðum að vita þetta, virðulegi forseti, og eina leiðin til þess er með skipun rannsóknarnefndar Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)