Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í löggæslunni og fangelsum landsins. Vandinn hefur stigmagnast á áratugalangri vakt Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Staðan er skjáskot af því hvað gerist þegar almannaþjónustunni er ekki sinnt. Lögreglunni mætir nú 2% aðhaldskrafa, tvöföldun frá fyrra ári. Þetta er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar, síendurtekin yfir áratug. Nú er svo komið að aðhaldinu verður ekki mætt nema með uppsöfnun innan lögreglunnar á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn slær um sig með 65 millj. kr. til að fjölga í lögreglunámi á háskólastigi. Þetta er enn eitt dæmið um algjöran skort á heildarsýn, enga heildræna stefnu í aðhaldi eða uppbyggingu, bara kropp hér og þar sem skilar sér í stórkostlegum kostnaði og veikum innviðum síðar meir. Þessar pólitísku ákvarðanir ógna nú öryggi lögreglufólks vegna undirmönnunar og ógna réttaröryggi í landinu. Þá hefur hulunni verið svipt af stórkostlegri uppsafnaðri innviðaþörf í fangelsum landsins. Allt hefur verið hreinsað inn að beini. Opnum fangelsum er lokað sem kemur í veg fyrir betrun á tíma afplánunar, kerfið harðnar, betrunarúrræði eru af skornum skammti, menntamál í ólestri sem og heilbrigðisþjónusta sem fangar eiga rétt á lögum samkvæmt. Öryggi fanga og fangavarða er ógnað í þessum aðstæðum. Peningar eru ekki til fyrir stunguvestum fangavarða og að öðru óbreyttu fækkar um 50 rými í fangelsiskerfinu af 170 um áramótin á sama tíma og 320 einstaklingar bíða nú eftir að hefja afplánun.

Virðulegi forseti. Staðan í fangelsis- og lögreglumálum er óásættanleg. Öryggi lögreglunnar, fanga og almennings er ógnað. Stjórnmálamenn verða að standa með öryggi fólksins í landinu á öllum stigum.