Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:45]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þjóðin hefur verið uggandi síðustu daga yfir atburðum síðustu helgar þar sem ráðist var á menn inni á skemmtistað með hrottalegum hætti. Því miður sjáum við þess merki að ofbeldi á meðal ungs fólks virðist fara vaxandi, sér í lagi hjá ungum karlmönnum sem beita einnig vopnum. Við verðum að spyrja okkur af hverju við færumst í þessa átt. Hvað er það í samfélagsgerðinni okkar sem veldur því að ungir menn valda skaða á sjálfum sér og öðrum? Það hefur verið nefnt að hér sé vaxin úr grasi kynslóð ungra manna sem upplifir sig utangátta í samfélagi okkar og eigi erfitt með að finna sér tilgang í lífinu. Við vitum að vandi drengja er mikill í skólakerfinu okkar. Við erum búin að vita í mörg ár að eftir grunnskólagöngu eru rúmlega 34% drengja sem geta ekki lesið sér til gagns. Þetta er tvöfalt hærra hlutfall en hjá stúlkum. Hér á landi eru drengirnir okkar á eftir stúlkum í öllum PISA-mælingum. Við getum haldið áfram upptalningunni. Árangur drengs sem byrjar í grunnskóla mun versna alla grunnskólagöngu hans. Af öllum Vesturlöndum eru minnstar líkur á að íslenskir drengir ljúki háskólanámi. Ísland er með eitt mesta brottfall drengja úr framhaldsskólum á Vesturlöndum. Hér á landi er lægsta hlutfall drengja í háskólum af öllum OECD-löndunum. Á síðustu tíu árum jókst hlutfall 18–29 ára karlmanna á örorku um 74%. Langstærsti hluti þeirra sem fyrirfara sér á Íslandi eru karlar. Við verðum að bregðast við og taka betur utan um drengina okkar. Við höfum séð viðvörunarljós blikka í mörg ár og nú getum við ekki beðið lengur. Það vantar aðgerðaáætlun varðandi drengina okkar. Við verðum að bregðast við.