Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur hér áðan. Stjórnmálamenn eiga að standa með lögreglunni rétt eins og öðrum stofnunum samfélagsins og við eigum að standa með fangelsunum og réttarvörslukerfinu í heild sinni. Það er frumskylda okkar hér inni að tryggja öryggi fólks í landinu. Það gerum við ekki með því að fjársvelta lögregluna og það gerum við ekki með því að fjársvelta fangelsi landsins. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur talað um stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi og auðvitað er hægt að gera grín að svoleiðis orðræðu. En, herra forseti, hvers konar stríð gegn glæpum er það nú eiginlega þegar afbrotamenn ganga lausir vegna þess að fangelsin geta ekki tekið við þeim vegna vanfjármögnunar? Og hvers konar stríð gegn glæpum er það þegar menntuðum lögreglumönnum fækkar og fækkar og þegar Ísland lendir í botnsæti í samanburði milli landa eftir fjölda lögreglumanna miðað við höfðatölu? Hvers konar stríð gegn glæpum er það nú eiginlega þegar öryggi fangavarða er ekki tryggt og þegar aðbúnaði í fangelsum er stórkostlega ábótavant, eins og Fangelsismálastofnun hefur farið yfir, og þegar fangelsiskerfið er of vanbúið til að geta veitt fólki alvörutækifæri til betrunar?

Virðulegur forseti. Þessi frasi dómsmálaráðherra um stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi er eiginlega hálfgerður brandari þegar við lítum á staðreyndirnar fyrir framan okkur. Fyrrverandi formaður Landssambands lögreglumanna lýsti því þannig fyrir örfáum árum að Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt löggæslu á Íslandi í rúst. Mannekla, vanfjármögnun og stefnurek í löggæslumálum — þetta er arfleifð Sjálfstæðisflokksins eftir tíu ár í dómsmálaráðuneytinu. Við verðum að skipta um kúrs.