Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

almannatryggingar.

65. mál
[17:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga frá Flokki fólksins um að fjárhæðir fylgi launavísitölu. Hvers vegna í ósköpunum erum við að flytja þetta frumvarp? Jú, vegna þess að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa beitt ótrúlegum blekkingum og hefur tekist að hækka ekki bætur almannatrygginga eins og laun. Þeir hafa notast við neysluvísitölu og ekki einu sinni rétta neysluvísitölu og með einhverjum fáránlegum útreikningum hafa þeir stundum náð að lágmarka — þegar neysluvísitala hækkaði um 6% gátu þeir með ótrúlegum bellibrögðum bara hækkað bætur almannatrygginga um 3%.

Vegna þessara aðgerða síðustu ríkisstjórna þá erum við komin að kjarna málsins sem er sú kjaragliðnun sem hefur átt sér stað gagnvart almannatryggingum undanfarna áratugi. Árið 1988 þegar staðgreiðslan var tekin upp voru lægstu bætur almannatrygginga skattlausar og fólk átti eftir allt upp undir 30% af persónuafslættinum sem það gat notað t.d. fyrir lífeyrissjóðstekjur eða aðrar tekjur. Síðan þá hefur kjaragliðnun og fjárhagslegt ofbeldi tekið á sig óhugnanlega mynd. Í dag eru lægstu bætur almannatrygginga langt frá því að vera skattlausar. Þeir sem eru á lægstu bótum almannatrygginga eru að borga frá 35.000–60.000 kr. í skatta og eiga ekki 30% afgang upp í eitt eða neitt.

Ef við setjum þetta á mannamál þá er staðreyndin sú að í dag vantar yfir 100.000 kr. eftir skatt mánaðarlega á bætur almannatrygginga. Við erum að tala um nærri tvær milljónir á ári sem vantar upp á, sem er búið að taka fullkomlega ólöglega, að ég tel, og getur ekki annað verið en lögbrot. Það stendur skýrt í 69. gr. laga að það skal miða við launavísitölu en eingöngu neysluvísitöluna ef hún er hagkvæmari. Þetta hefur aldrei verið gert. Við getum bara rétt ímyndað okkur fólk sem á varla fyrir mat og húsnæðisleigu, er með allt upp í 70–78% í leigu, og ef það hefði 120.000–130.000 kr. meira útborgað á hverjum mánuði myndi það skipta sköpum. Það er nákvæmlega þetta sem er búið að taka af þessu fólki og ekki bara það, fáránleikinn liggur í því að frítekjumörkin og persónuafslátturinn hafa ekki heldur fylgt launavísitölu.

Með því að taka allt úr sambandi hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn tekist að halda fólki þarna og koma því í sárafátækt. Þetta gildir líka um styrki vegna bifreiða, lyfjakostnaðar, tannlækninga og afleiðingarnar eru þær að okkar verst setta fólk hefur ekki einu sinni efni á að borga nærri 2.000 kr. í dag aukalega til að fara til sjúkraþjálfara eða 4.000–40.000 til að fara til sérgreinalækna; þessar aukaálögur sem er búið að leggja á fólk, fyrir utan að það er búið að taka af því yfir 100.000 kr. á mánuði. Svona fjárhagslegt ofbeldi er óþolandi og þess vegna höfum við í Flokki fólksins lagt fram frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, akkúrat út af þessu, og að bætur skuli fylgja launaþróun til þess að ekki sé verið að klekkja aftur á þessum hópi, það þarf að fylgja því eftir með þessum 400.000 kr.

Við þurfum að koma hlutunum þannig fyrir að okkar verst setta fólk fái réttlætið. Það á ekki að bíða lengur eftir réttlætinu. Fimm ár eru síðan að sagt var að þeirra tími væri kominn. Hann er löngu kominn, hann er kominn núna. En því miður er frekar ólíklegt að þetta frumvarp verði samþykkt með þessa ríkisstjórn við völd, vegna þess að hún hefur eiginlega sett sér það markmið að gera ekki neitt og ef hún gerir eitthvað þá er það frekar til bölvunar en góðs.

Við höfum því miður rekið okkur á það að ríkisstjórnin fer ekki að lögum, þau eru ekki að hækka samkvæmt launavísitölu, hækka ekki frítekjumörk, styrki, bifreiðastyrki, eða neitt, þetta er allt að lækka. Með því að hækka t.d. frítekjumörkin og persónuafslátt á mismunandi bótaflokka er verið að auka á skerðingarnar og eymdina. Það virðist bara hreinlega frekar vera stefna þessarar ríkisstjórnar að gera fólki erfiðara fyrir, koma því í verri stöðu, láta fleiri fara í raðir eftir mat, en að gera eitthvað fyrir þá verst settu.

Þess vegna segi ég: Vonandi nær þetta frumvarp í gegn, en því miður, eru líkurnar ekki miklar. Við verðum alltaf að vona að ríkisstjórnin sjái ljósið og reyni nú að hugsa aðeins um þá verst settu en ekki eingöngu um þá efnameiri í þjóðfélagi okkar.