Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

almannatryggingar.

65. mál
[17:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er lagt fram af mikilli nauðsyn og þörf, þ.e. að bætur almannatrygginga breytist árlega í samræmi við launavísitölu en ekki í samræmi við fjárlög. Mesta kjaraskerðingin sem öryrkjar og aldraðir hafa orðið fyrir frá hruni er kjaragliðnunin, þ.e.a.s. hlutfallsleg rýrnun lífeyris almannatrygginga miðað við launaþróun. Á hverju ári eiga kjör öryrkja og aldraðra að hækka í samræmi við launaþróun. Lögin segja hins vegar annað. Við segjum einfaldlega að þau eigi að hækka í samræmi við launaþróun og það viljum við festa í lög.

Þrátt fyrir skýr fyrirmæli laga um að tryggja að almannatryggingabætur fylgi launaþróun er það virt að vettugi ár eftir ár. Ekki nóg með það. Á sama tíma hefur ríkið árum saman viðhaldið bráðabirgðaákvæðum sem kveða á um að frítekjumörk, skerðing almannatrygginga skuli standa í stað. Öryrkjar og aldraðir sem reyna að afla sér aukatekna með vinnu eða öðrum hætti lenda umsvifalaust í skerðingu bóta, þannig að þeim er beinlínis refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Afleiðingin er sú að öryrkjar og aldraðir þurfa að lifa í fátækt og eru fastir í fátæktargildrum. Þegar lífeyrisþegar reyna að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum fyrir dómstólum gerir ríkið hvað sem er til að koma sér undan því að greiða lífeyri lögum samkvæmt, áfrýjar eftir hvert einasta tap og svo tekur mörg ár að fá greitt frá ríkinu. Það er gjarnan svo að þeir sem eiga rétt til endurgreiðslu frá ríkinu, eftir að hafa unnið málið fyrir dómstólum, missa greiðsluna strax til baka, vegna hvers? Jú, skerðinganna.

Sem dæmi um vaxandi kjaragliðnun má nefna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka lífeyri almannatrygginga síðustu áramót um 4,6%. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 7,5%. Lífeyrisþegar voru því sviptir lögbundinni kjarabót upp á 2,9%. Það er munurinn á 7,5% launavísitölunni, sem hún hækkaði um, og þeim bótum sem lífeyririnn hjá almannatryggingum hækkaði, 4,6%, það munar 2,9%. Þeir voru sviptir lögbundinni kjarabót þarna.

Svona verklag hefur viðgengist hjá ríkisstjórnum síðustu ára og áratuga. Það heyrir til undantekninga að sitjandi ríkisstjórn virði skýr lagafyrirmæli um að lífeyri almannatrygginga skuli uppfæra milli ára með tilliti til launaþróunar og í raun er allur gangur á því hvaða mælikvarði er lagður til grundvallar til uppfærslu lífeyris. Afleiðingin er sú að kjör öryrkja og eldri borgara eru í dag 30% lægri en ef ríkið hefði fylgt eigin lögum. Þessi kjaragliðnun mun halda áfram að óbreyttu. Allir stjórnmálaflokkar hafa lofað því að leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun. Engu að síður hafa frumvörp Flokks fólksins um að leiðrétta kjaragliðnunina ekki hlotið brautargengi. Þingmenn sitjandi ríkisstjórnar hafa staðið í vegi fyrir afgreiðslu þeirra úr fastanefndum Alþingis og greitt atkvæði gegn þeim í þingsal.

Verk þessa þingmeirihluta tala svo sannarlega. Á meðan þurfa aldraðir og öryrkjar að glíma við kerfi sem hneppir þá fasta í viðjur fátæktar og veitir þeim engin tækifæri, heldur refsar þeim sem reyna að berjast í bökkum með því að afla sér tekna. Þetta frumvarp um það að breyta árlegri hækkun almannatryggingabóta í samræmi við launavísitölu er til þess að tryggja að kjaragliðnunin haldi ekki áfram. Hún gerir það í dag vegna þess að núna breytast bætur almannatrygginga árlega í samræmi við fjárlög. Þessu grundvallaratriði verður að breyta og tryggja að þetta fari fram eins og Alþingi er búið að samþykkja einu sinni en það er aldrei staðið við það í einum einustu fjárlögum. Það er mjög mikilvægt að taka þennan kaleik frá fjárlagaumræðunni og að hækkanirnar verði sjálfvirkar eins og er í öðrum lögum, t.d. í skaðabótalögunum. Eins og kom fram í máli mínu breytast fjárhæðir skaðabóta mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu skv. 15. gr. skaðabótalaga og það sama ætti að gera varðandi bætur almannatrygginga, þær ættu að breytast árlega í samræmi við launavísitölu skv. 69. gr. laga um almannatryggingar, verði frumvarp þetta samþykkt.