153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

andleg heilsa íslenskra barna.

[10:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er erfitt að segja þetta upphátt en á því herrans ári 2022 telja einungis 27% stúlkna í 10. bekk staðhæfinguna „ég er ánægð með líf mitt“ eiga við um sig. Þetta kemur fram í skýrslu um áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum sem rædd var í síðustu viku hér í þinginu. Mun lægra hlutfall stúlkna en drengja metur andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Hjá stúlkum í 9. bekk fór hlutfallið úr 62% á árinu 2018 niður í 44% árið 2021, mun minni lækkun verður hjá drengjum á sama tíma þó svo að líðan þeirra hafi líka versnað.

Sama mynstur kemur fram þegar skoðað er það hlutfall barna sem segja að sú fullyrðing að þau séu hamingjusöm eigi mjög vel við sig. Hamingjusömum drengjum og stúlkum fækkar umtalsvert hér á landi. 57% drengja í 10. bekk voru hamingjusöm árið 2018 borið saman við 49% árið 2022. Hjá stúlkum lækkaði hlutfallið úr 40% í 28% á sama tíma. Andleg heilsa íslenskra barna, sér í lagi stúlkna, fer hratt versnandi. 64% stúlkna í 10. bekk fundu fyrir depurð vikulega eða oftar árið 2022 samanborið við 48% árið 2018. Aukinn kvíði er sömuleiðis áhyggjuefni en 77% stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða vikulega eða oftar samanborið við 38% drengja.

Vaxandi munur er milli kynja í þessum efnum allt frá árinu 2007. Vanlíðan stúlkna fer þó hratt versnandi síðastliðin fjögur ár og munur á líðan drengja og stúlkna vex mikið á sama tíma, þ.e. á þeim tíma sem hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur farið með málefni barna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvaða skýringar hann telji vera á þessari óheillaþróun og hvernig hæstv. ráðherra sé að taka á vandanum.