153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

andleg heilsa íslenskra barna.

[10:47]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp á þinginu og tek undir með þingmanninum um áhyggjur af þróun mála í þessu efni.

Fyrst varðandi skýringar á þessu áður en ég fer í þær aðgerðir sem við þurfum að ráðast í. Ég held að það sé ekki einhver ein einhlít skýring á þessu. Ég held að það séu fleiri samsett atriði sem þarna spila inn í, samfélagið okkar og breytingarnar sem eru að verða á því. Við þurfum að huga betur að grunngerðinni sem er fjölskyldan, hið mannlega, og virkja betur samskipti foreldra og barna. Ég held að þar hafi verið neikvæð þróun. Ég held að snjallforritin og tæknivæðingin spili inn í þetta. Við sjáum líka Covid-faraldurinn spila inn í þetta og fleiri atriði. Við sjáum sambærilega þróun í allflestum ef ekki öllum löndum sem við berum okkur saman við í hinum vestræna heimi.

Síðan kemur að því hvernig við getum gripið inn í til að bregðast við þessu. Stjórnvöld hafa verið með ýmsar aðgerðir í núinu til að bregðast við þessu, bæði styrkt ýmis geðheilbrigðisúrræði eins og Bergið headspace í tengslum við Covid-faraldurinn, átak sem félagsmálaráðuneytið leiddi og var hleypt af stokkunum fyrir einhverjum mánuðum síðan til að ná til ungs fólks og ungmenna. Það sem ég held að skipti mestu máli er að huga að því að grípa fyrr inn í skólakerfinu þegar kemur að geðheilbrigði. Hluti af því sem við erum að vinna að núna, sem var samþykkt og er hluti af menntastefnu, er að koma upp þrepaskiptum geðheilbrigðisstuðningi í skólunum og geðheilbrigðisfræðslu. Hluti af því er fyrirhuguð vinna um smíði á nýrri skólaþjónustulöggjöf vegna þess að við þurfum að grípa fyrr inn í. Við þurfum að ná til einstaklinganna áður en þarna er komið. Það sama á við um ofbeldisumræðuna og það sem lýtur að þessu. Ég held að við þurfum að taka umræðu um skólakerfið okkar og hvernig við gerum það. Við erum að setja 80 milljónir núna í undirbúning á þessu verkefni um geðheilbrigði í skólum og þrepaskiptan stuðning. Verkefnisstjórinn sem stýrði þeirri skýrslu og vinnu er kominn til starfa, við fengum hann lánaðan frá landlækni og hann mun stýra þeirri vinnu áfram. (Forseti hringir.) En það er ekkert einhlítt svar um eitthvað sem við getum gert núna til þess að laga þetta. Það eru fleiri samþætt atriði sem þurfa koma til.