153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

andleg heilsa íslenskra barna.

[10:51]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Jú, ég er sammála því að við eigum að hraða öllum aðgerðum þegar kemur að þessu. Það er grafalvarlegt að geðheilsu ungs fólks fari hrakandi, bæði hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég er líka sammála því að við eigum að hraða innleiðingu farsældarlaganna. Ég er ekki sammála því að þau séu ekki fjármögnuð vegna þess að þau eru fjármögnuð. Við erum með fjármagn til innleiðingar á þeim, hún var unnin í samstarfi við sveitarfélögin. Ég vil líka segja að þegar við erum að fara í breytingar eins og þessar — og ég hef verið að heimsækja sveitarfélögin sem um ræðir — til þess að grípa fyrr inn í og breyta inni í skólunum, þá er það ekki þannig að ráðherrann geti sagt: Nú breytum við þessu öllu á einum degi. Það þarf að verða kúltúrbreyting, menningarbreyting, samtal á milli kerfa og það tekur tíma, því miður. Ég myndi vilja að það tæki hálfan mánuð og ef það væri hægt að leysa það með 2 milljörðum og það tæki hálfan mánuð, (Forseti hringir.) þá værum við búin að því. En það er ekki þannig, því miður. (Forseti hringir.) Við erum að gera allt sem við getum til að hraða þessu og við erum að fara í afgerandi breytingar með því að innleiða þrepaskiptan stuðning inni í skólakerfinu (Forseti hringir.) þegar kemur að geðheilbrigði en það tekur tíma. Því verður ekki breytt á einni nóttu. Við erum með (Forseti hringir.) fjölmargar skólastofnanir og aðila sem þarf að eiga samtal við og aðstoða fólk við þessar breytingar.