153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

leiðir í orkuskiptum.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir litríka og áhugaverða ræðu sem fékk mig til að hugsa um gamla góða 100 kr. seðilinn með einmitt sauðfénu á annarri hliðinni. En ég tel að við getum ekki afgreitt vandamál okkar eða verkefni með því að lýsa því yfir að við séum í reynd bara fást við vindmyllur vaxta og launa, eins og komist var að orði. Mín skoðun er að til þess að ná meiri árangri í stjórn hagkerfisins og efnahagsmála almennt, sem myndi þá miða að því að hafa að jafnaði lægra vaxtastig og að jafnaði ekki jafn mikinn mun á verðbólgustiginu á Íslandi og í öðrum löndum, þá þurfum við að stíga stærri skref til að taka sjálf meiri ábyrgð á stöðunni. Í þessu sambandi er nærtækt t.d. að vísa til skýrslu sem kom út fyrir nokkrum mánuðum síðan þar sem Katrín Ólafsdóttir annars vegar og síðan Arnór Sighvatsson hins vegar fóru aðeins yfir launamyndun á Íslandi og áhrif hennar og samhengi við vexti og verðbólgu og það hvernig við höfum ekki náð að þroska íslenskan vinnumarkað með þeim hætti að sammælast um það að verkefni kjarasamninganna hverju sinni sé að skilgreina svigrúmið til launahækkana og ráðstafa því síðan í kjaralotunni. Þar sem við horfum upp á einmitt þessa dagana er í raun og veru þveröfugt við það þar sem engin sameiginleg sýn er á það hvert svigrúmið er. En allir ætla sér að verða fyrstir til að taka sem stærsta sneið af kökunni. Þetta er áskrift á viðvarandi hærra vaxta- og verðbólgustig nema við tökum betur ábyrgð á stöðunni, beitum saman þeim tækjum sem við höfum; Seðlabankinn, hið opinbera, ríki og sveitarfélög og vinnumarkaðurinn.