153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

vistun barna í fangelsi.

[11:05]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Hér talar dómsmálaráðherra um ungt fólk og unga einstaklinga en þetta eru börn. Einangrun er mjög íþyngjandi refsing og þá sérstaklega hættuleg börnum. Einstaklingar sem hafa verið í einangrun í fangelsum eru líklegri til þess að þróa með sér kvíða, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir og geðrof. Einangrun getur líka haft áhrif á líkamlega heilsu, eykur líkur á beinbrotum, sjónskerðingu og krónískum verkjum, svo fátt eitt sé nefnt. Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum hefur gefið það út að hvers konar einangrun hjá börnum geti stefnt líkamlegri heilsu og geðheilsu þeirra í hættu. Öll einangrun barna er hættuleg. Þau komast að þeirri niðurstöðu að einungis sé réttlætanlegt að beita einangrun í algjörum undantekningartilfellum. Einangrun má alls ekki vara lengur en algjör nauðsyn krefur og ekki lengur en þrjá daga. Aðaláhyggjuefnið er skaðinn sem getur hlotist af því (Forseti hringir.) að vera sviptur félagslegum samskiptum. Það er á ábyrgð hæstv. ráðherra að tryggja öryggi og heilsu barna í réttarvörslukerfinu. (Forseti hringir.) Hvað ætlar ráðherra að gera til að laga þessa óásættanlegri stöðu?