153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

vistun barna í fangelsi.

[11:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það takast á í þessu sjónarmið sem verður að meta hverju sinni. Við horfum fram á mjög alvarlega stöðu í samfélagi okkar þegar kemur að afbrotahrinu sem við höfum verið að upplifa. Það þarf auðvitað að beita öllum ráðum til að stemma stigu við þeirri þróun sem er að verða. Ég ítreka það og fullyrði að bæði löggæsluyfirvöld og fangelsismálayfirvöld taka á þessum málum með eins mikilli mildi og hægt er. Þetta úrræði er ekki notað gagnvart ungu fólki nema í algjörum undantekningartilfellum og þegar mikið liggur við og þá er reynt að hafa það í skamman tíma. Einangrunin felst auðvitað í því að klippa á samskipti við aðra en það útilokar ekki samskipti við starfsmenn og aðra sem að þessum málum koma og því er fylgt eftir. Ég held að það sé mikilvægast fyrir okkur í þessu að horfa til þeirra úrræða sem við getum gripið til til þess að stemma stigu við þessari alvarlegu þróun og það er það sem ég mun einbeita mér að.