Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

lögfræðiálit lífeyrissjóðanna um ÍL-sjóð.

[11:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég er svolítið hugsi yfir vinnuaðstöðu tiltekinna nefnda hér á þingi þegar upp koma mál af þessu tagi sem gerist reyndar býsna oft. Það eru einhver mál þar sem stjórnvöld þurfa að bregðast við með hraði og þar með þurfa viðkomandi nefndir þingsins að bregðast við með hraði og síðan þingheimur. Það getur, eins og dæmin sýna, reynst býsna dýrkeypt skattborgurum þessa lands ef mistök verða. Það kom lögfræðiálit við þennan gjörning sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti sem studdi við það. Því lögfræðiáliti var mótmælt af ýmsum aðilum og núna mjög sterklega í öðru lögfræðiáliti sem gengur þvert á það fyrra. En í millitíðinni gerist það að beiðni fastanefndar þingsins, sem tekur að lokum afstöðu til þess máls og vinnur með það mál sem kemur inn til þingsins, var hafnað. Bón meiri hluta eða tiltekins fjölda þingmannanefndarinnar um lögfræðiálit var einfaldlega neitað. (Forseti hringir.) Það er það sem skilur mig eftir vægast sagt hugsi og eiginlega með óþægilega tilfinningu yfir því hvernig verklag við erum farin að viðhafa hér.