Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

lögfræðiálit lífeyrissjóðanna um ÍL-sjóð.

[11:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð þeirra sem talað hafa undir þessum lið í dag. Ég vil benda á að um er að ræða risastórt hagsmunamál fyrir ríkissjóð, fyrir almenning og fyrir þá sem eiga lífeyrissjóðina sem eiga aftur hlut í Íbúðalánasjóði. Jafnvel þó að málið sé ekki komið hingað til þingsins þá er það hér í umræðunni og er, eins og ég sagði áðan, risastórt hagsmunamál og skoðanir stangast á.

Mér finnst alls konar skrýtnar hugmyndir vera í umræðunni eins og t.d. að lífeyrissjóðirnir séu eign þjóðarinnar. Það er ekki þannig. Hver og einn lífeyrissjóður er eign þeirra sem að þeim ákveðna lífeyrissjóði standa og þeir eiga mismunandi hlut í því sem við erum að ræða hér. Lögfræðiálit af hálfu þingsins er nauðsynlegt.