Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

lögfræðiálit lífeyrissjóðanna um ÍL-sjóð.

[11:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hingað upp bara til að ítreka hversu frústrerandi það er að þurfa trekk í trekk að standa hér og kvarta yfir því að stjórnarandstaðan fái ekki að beita sér með þeim verkfærum sem hún biður um til að sinna aðhaldsskyldu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu. Trekk í trekk komum við hingað upp til að varpa ljósi á það að þegar við biðjum um almennilegar rannsóknir í risastórum málum eins og sölunni á Íslandsbanka eða lögfræðiálit út af ákvörðunum ráðherra varðandi risastórt mál eins og ÍL-sjóðinn þá er okkur alltaf svarað: Nei, nei, þið megið það ekki, við ætlum ekki að leyfa ykkur að fá lögfræðiálit, það á ekki að rannsaka þetta mál almennilega. Við sjáum það svo núna á lögfræðiálitinu sem (Forseti hringir.) er komið frá Logos fyrir lífeyrissjóðina að þarna er líklegast verið að stefna í brot á stjórnarskrá.

Ég spyr bara: Í hvert skipti sem við fáum nei, er það ekki bara merki um að það sé verið að fela eitthvað? (Forseti hringir.) Það er verið að fela eitthvað fyrir okkur. Það er verið að koma í veg fyrir að við getum sinnt þeim skyldum okkar hér, stjórnarandstaðan og þingið allt, að hafa aðhald með framkvæmdarvaldinu. Mér finnst þetta óboðlegt og ég bið um að forseti standi með okkur í þessu.