Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:51]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég segi það í fullri hreinskilni að ég tel þá vinnu sem stendur yfir núna vera mjög mikilvæga vegna þess að við erum að freista þess að nálgast hana með öðrum hætti en við höfum gert áður, þar sem við erum ekki fyrst og fremst að einangra ágreininginn heldur að reyna að ná utan um þau mál sem fara sem betur fer sífellt ofar á áherslulista um lönd og álfur; umgengni við auðlindina, umhverfismálin, þessi mikilvægu atriði um að við höldum áfram að nýta auðlindir sjávar í ljósi loftslagsbreytinga o.s.frv. á sjálfbæran hátt. Það er auðvitað stóra viðfangsefnið.

Varðandi þetta tiltekna mál og það sem hv. þingmaður er að spyrja um þá er þetta mál auðvitað ekki, eins og hv. þingmaður veit, veiðigjaldamálið. Við eigum eftir að ræða það síðar, en ég segi það núna, hef sagt það áður og stend við það, að þegar við erum að ræða þessi mál í þessari breiðu samstöðu (Forseti hringir.) og erum að freista þess að ná breiðri samstöðu um málið þá getum við ekki leyft okkur að slá neinar hugmyndir út af borðinu. Við það mun ég standa.