Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar einnig að nefna að þegar við erum að tala um mál eins og þetta sem hefur klofið þjóðina í áratugi, þ.e. hvernig við högum gjaldtöku í sjávarútvegi, hvernig þeir sem nýta sameiginlega auðlind allrar þjóðarinnar eiga að greiða fyrir þann rétt, þá þurfa hlutirnir að vera þannig að fleiri geti lesið sig í gegnum það en færustu endurskoðendur, sérfræðingar í skattarétti og slíkir einstaklingar.

Það hefur verið kallað eftir því að einfalda þetta kerfi. Hugleiðingar um það hafa komið fram og er t.d. í stefnu míns flokks að einfaldast sé að láta markaðinn ákvarða hversu hátt gjaldið eigi að vera, að það sé í raun og veru skilvirkasta leiðin til að gera þetta. En mig langar að fá mat hæstv. ráðherra á því, þegar við erum í þessari stöðu eftir Covid-aðgerðir, hvort þetta sé ekki mjög til þess fallið að rýra trúverðugleika þess kerfis sem við erum með núna til að ákvarða upphæð veiðigjalda. (Forseti hringir.) Erum við ekki í þeirri stöðu núna að þetta grafi allt saman enn meira undan því en orðið hefur?