Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir hennar ágætu ræðu. Þetta frumvarp sló mig eiginlega í rot þegar ég sá það. Í fyrsta lagi leið mér mjög einkennilega, þetta er í fyrsta skipti sem ég horfi á slíkan pólitískan hráskinnaleik svo gjörsamlega grímulausan — hvernig popúlisminn fær að blómstra hér í þessu frumvarpi. Raunverulega, eins og ég upplifi það og er staðreynd, er ekki verið að hækka veiðigjöldin um eina einustu krónu. Það var hlálegt þegar verið var að tala um að fletja út kúrfuna. Mér fannst ég vera komin með hv. fyrrverandi sóttvarnalækni og allt hans þríeyki fletjandi út kúrfuna í öllum þessum Covid-aðgerðum sem við vorum að glíma við á sínum tíma. Fletja út hvaða kúrfu? Við höfum t.d. fengið að vita að skuldir ríkissjóðs eru 160 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir áður en við fórum í allar þessar Covid-aðgerðir. Það var gert ráð fyrir að við þyrftum að punga út 160 milljörðum meira heldur en raun ber vitni, þó að við skuldum nóg fyrir.

Þessi popúlismi sem blasir við mér hér er einfaldlega sá að fyrirsagnir í blöðunum segja: Svandís Svavarsdóttir hækkar veiðigjöldin um 2,5 milljarða á næsta ári. Þetta er það sem ég dró sérstaklega út úr þessu og langar að leggja sérstaka áherslu á. Ég spyr því hv. þingmann hvort ekki sé ráð að við gerum því augljósari skil hver raunverulegi tilgangurinn er. Telur hv. þingmaður að það hafi verið rétt að veita svona gríðarlegar ívilnanir og hvatningu í nýsmíði, viðhald og allar þær framkvæmdir sem útgerðin var hvött til að fara í til að fá þessar ívilnanir sínar og borga lægri veiðigjöld? Ég get ekki betur séð en að eins og venjulega hafi bara einstaka útgerðir ráð á því. Litlar og meðalstórar útgerðir geta alls ekki nýtt sér þetta úrræði að einu eða neinu leyti og sitja þar af leiðandi eftir í súpunni sem endranær.