Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Auðvitað gerði það það og þetta var rosaleg eldskírn fyrir mig, man ég eftir, þarna er ég nýkomin á þing og þetta var eitt af fyrstu stóru málunum sem varð viðfangsefni hv. velferðarnefndar sem ég sat í á þeim tíma. En ég dró ótrúlega mikilvægan lærdóm af þessu ferli um hvað það er sem skiptir máli. Við erum allt of oft að lenda í þessu hér á þingi. Við fáum mál til okkar sem þarf að klára í ofboðslega miklum flýti og eru sett í flýtimeðferð og allur tími styttur og allt þetta og við erum allt of oft að lenda í því að mistök eru gerð og mistökin kosta okkur líka pening. Við megum ekki gleyma því. Mér skilst að það hafi einmitt verið móðir hv. þingmanns sem rak þetta mál á sínum tíma. (IngS: Aðili.) Hún var aðili sem rak þetta mál á sínum tíma og bara ótrúlega flott hjá Flokki fólksins að taka þetta mál og keyra það áfram. Það er mikilvægt. Það olli mér miklum vonbrigðum á sínum tíma hvernig var farið í þetta mál því þá áttaði ég mig á því að það skiptir oft ekki máli hvaða rök stjórnarandstaðan kemur með eða hvernig við vörpum ljósi á mál, það er einhvern veginn allt hunsað og svo er bara keyrt áfram. Svo eru afleiðingar af því. Eldskírn mín fólst í því að þurfa að horfa á þann raunveruleika að það skortir svo mikið upp á samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu þegar við erum að díla við svona mál sem varðar allt þingið og samfélagið allt og við ættum að standa betur að. Mér finnst mikilvægt að við komum í veg fyrir slíkt og þess vegna geri ég þá athugasemd við þetta mál að það verði ofboðslega vel athugað í atvinnuveganefnd.