Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Erum við hér að tala um frumvarp eða barbabrellu? Ég veit það ekki alveg. Í mínum huga er þetta frumvarp að taka tíma frá þinginu sem betur væri varið í annað. Hér er allt í einu kallað eftir því að fletja út kúrfuna hvað veiðigjaldið varðar af því að allt í einu hefðu veiðigjöldin sennilega orðið 2,5 milljörðum kr. lægri á næsta ári en þau hefðu orðið ef ekki hefði komið til þessara fyrningarreglna sem mismuna í raun útgerðinni svo stórkostlega að það er enn einn skandallinn. Enn ein silkihúfan sem maður er að horfa upp á frá þessari ríkisstjórn. En á sama tíma og það er virkilega verið að tala um að það veiti ekki af því að ná í þessa 2,5 milljarða inn í ríkissjóð þá hafa viðskiptabankarnir frá því árið 2018, stóru viðskiptabankarnir þrír, hagnast um hátt í 300 milljarða kr. Og hvað skyldum við nú hafa lækkað bankaskattinn á þá? Um 6 milljarða. Á örskömmum tíma erum við búin að lækka bankaskattinn um 6 milljarða kr., virðulegi forseti. Mér er misboðið þegar sýknt og heilagt er verið að færa fjármagnið þangað sem það er fyrir, þar sem allir vasar eru bólgnir af peningum eins og t.d. í bönkunum. Mér er misboðið þegar stórútgerðin er eiginlega sú eina sem virkilega getur nýtt sér þessar fyrningarleiðir sem hér hefur sýnt sig að muni draga gríðarlega úr veiðigjöldunum á næsta ári, veiðigjöldum sem nota bene hafa stórlega lækkað í höndunum á þessari ríkisstjórn og reyndar þeirri sem klauf ölduna á kjörtímabilinu á undan.

Nú les ég það í fyrirsögnum blaða að hækka eigi veiðigjöldin árið 2023 um 2,5 milljarða. Þetta er ósatt. Þetta er hrein og klár falsfrétt. Það er ekki verið að hækka veiðigjöldin. Það er verið hliðra aðeins til og reyna að teygja þau og jafna út á næstu fimm árum. Það er verið að gefa ríkisskattstjóra heimild til þess að jafna út veiðigjöldin á næstu fimm árum þannig að þetta líti ekkert rosalega illa út fyrir ríkisstjórnina á næsta ári, það komi ekki gjá niður í veiðigjöldin þar sem þau lækka svona rosalega mikið. Það lítur illa út vegna þess að ekki er sátt í samfélaginu um það hvernig auðlindin okkar hefur verið arðrænd af græðgisvæddum risakvótakóngum, risaútgerðum sem eru búnar að byggja upp veldi hringinn í kringum jörðina, maka krókinn á okkar sameiginlegu auðlind án þess að við höfum fengið notið þess eins og við sannarlega ættum að gera.

Veiðigjöldin hafa tæplega staðið, gerðu það t.d. ekki árið 2020 og þótt víðar væri leitað, undir rekstrinum í kringum sjávarútveginn, á Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, rannsóknum og öllu því sem við viljum svo gjarnan gera á hafsvæðum okkar í kringum landið til þess að vita hvort við eigum eftir einhver síli þarna eða hvort þetta sé allt að synda burt. Það er ekki flóknara en það að við höfum ekki með veiðigjöldunum staðið undir þessum grunnkostnaði þannig að það þarf að sækja fé til viðbótar í ríkissjóð, virðulegi forseti.

Hvað er þá þjóðin að fá sjálf fyrir aðgang að auðlindinni? Ekki neitt, þrátt fyrir vaxandi fátækt, blússandi verðbólgu og okurvexti. Síðast í gær var Seðlabankinn að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Greiðslubyrðin á þessu litla láni sem ég er með, ekki verðtryggt, tek ég fram, hefur hækkað um rúm 50% frá því í mars vegna þess að vextirnir fóru úr 3,6% í 7,7%. Ég er búin að reyna að fá að vita hvað í ósköpunum er í gangi. Ég er á ofurlaunum hér og ég hef efni á að borga þetta. Ég hef efni á að fá svona kjaftshögg af og til. En fátækt fólk sem er í vanda úti í samfélaginu hefur ekki ráð á þessu. Það getur ekki tekið við svona kjaftshöggum. Það er bara ekki hægt. Það er ekki hægt að greiðslubyrði þeirra fari kannski úr 100.000 kr. í 200.000 kr. á nokkrum mánuðum, hjá fólki sem á ekki fyrir salti í grautinn. Það að ætla að láta líta út fyrir að hér séum við að hækka veiðigjöld, við séum svona rosalega góð, er rangt. Ég vil að það sé skýrt tekið fram. Við erum að fletja kúrfuna og teygja lopann yfir fimm ár. Við skulum bara hafa þetta eins og þetta var. Við skulum bara lofa þeim að uppskera eins og þeir sáðu. Taka á móti öllu ruglinu sem þeir voru með í þessari misskiptingu fyrninga sem útgerðin fær ein að njóta, langtum meiri fyrningu en nokkur önnur starfsemi í landinu fær að njóta.

Það er ekki ein báran stök, virðulegi forseti. Það er ekki eitt heldur er það allt. Ég vil bara ítreka það svo að það komi skýrt fram að veiðigjöldin eru ekki að hækka á næsta ári. Það er verið að fletja út kúrfuna, það er verið að færa þau á milli ára, það er verið að reyna að girða fyrir ruglið sem var í gangi þegar þessar fyrningarreglur voru settar. Covid-aðgerðin svokallaða sem átti að hjálpa útgerðinni, átti að hvetja til nýsmíði, hvetja til framkvæmda hjá útgerðinni — það skal engum detta í hug að þeir hafi ekki verið löngu búnir að ákveða það að smíða ný skip. Það kom ekki út af þessari fyrningu. Hins vegar verður líka að taka það fram að það eru engir, hvorki lítil eða meðalstór útgerðarfélög, sem hafa getað ráðist í framkvæmdir þar sem þessar fyrningarleiðir hafa nýst. Eina ferðina enn er verið að hygla stórútgerðinni, þeim sem hafa efni á því. Þeir geta nánast skammtað sér það sjálfir í skjóli þessara reglna, í skjóli þessa frumvarps þar sem verið er að reyna að klóra yfir þetta núna, þeir geta skammtað sér það sjálfir hvað þeir eiga að greiða í veiðigjöld. 33% af EBITDA er það sem við eigum að fá, við eigum að fá 33% af hreinum hagnaði þeirra í veiðigjöld. Það er náttúrlega bull, við fáum það bara ekki neitt. Það er svo langt frá því að það hálfa er hellingur.

Virðulegi forseti. Það er með hreinum ólíkindum að við skulum vera að gaspra hér um þetta og eyða okkar dýrmæta tíma sem mér finnst að eigi að fara í eitthvað annað eins og það að hjálpa fólki sem á bágt. Mér finnst algerlega skilyrðislaust að það eigi að stokka þetta blessaða sjávarútvegskerfi upp frá rótum og koma sanngjörnum og almennilegum greiðslum stórútgerðarinnar til samfélagsins því þeir hafa meira en efni á því. Útgerðin hefur hagnast um tugi milljarða þegar þeir eru að greiða sér út 14 og 20 milljarða í arð og hlæja að því hvað það er búið að lækka veiðigjöldin mikið. Þeir hlæja að því. Meira að segja hafa komið í viðtöl forsprakkar stórútgerða sem hafa sagt: Við getum hæglega greitt hærri veiðigjöld. Við erum ekkert endilega að biðja um að greiða lítið sem ekki neitt. Ég veit ekki hvernig stendur á því að það sé svona ofboðsleg varnargirðing hér á hinu háa Alþingi og hjá framkvæmdarvaldinu og ráðherrum. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig stendur á því að það er alltaf verið að vernda og hagsmunagæslan er slík og þvílík að manni er orðið óglatt. Stórútgerðarkóngar eru farnir að eigna sér meira á landi, ekki bara miðin heldur allt í landi líka, í fyrirtækjum sem koma sjávarútvegi akkúrat ekkert við. Þeir eru búnir að maka svoleiðis krókinn og það flæða svoleiðis milljarðarnir inn að þeir geta ekki einu sinni talið þá. Þeir geta keypt upp nánast hvert einasta fyrirtæki í landinu, hvort heldur sem það lýtur að tryggingum, verslunum eða öðru. Er það svona sem við höfðum séð það fyrir okkur þegar verið er að tala um sjálfbærni í sjávarútvegi? Að það yrði níðst á þjóðinni í heild sinni? Ég hefði haldið ekki, virðulegi forseti.

Núna gengur í garð mjög erfiður tími hjá stórum hluta samfélagsins. Þegar fólk stendur í röðum grátandi og biður um mat, þar sem forsvarsmenn hjálparstofnana segjast aldrei hafa séð aðra eins neyð, stöndum við þá hér og setjum í flýtimeðferð hjálparaðgerðir fyrir þetta fólk? Gerum við það? Nei, við gerum það ekki. Við þurfum að berjast fyrir því með kjafti og klóm að kreista út einhverjar krónur til að hjálpa fólki. Ég er orðin svo gjörsamlega yfir mig hissa á vinnubrögðunum hérna, ég trúi því varla. Ef þetta væri vinnustaður, bara almennur vinnustaður þar sem skilvirkni væri ekki meiri en raun ber vitni, hér á hinu háa Alþingi, þá er ég viss um að það væru margir þar sem myndu missa vinnuna, svo ekki sé meira sagt. En auðvitað er það í höndum kjósenda að ákveða hverjum þeir raða hér inn, hvaða 63 alþingismenn eru æðstu valdhafar samfélagsins. En það ætti líka að vera augljóst í þeirra augum hverjir það eru sem eru ekki að vinna vinnuna sína í þágu þeirra sem virkilega þurfa á hjálp að halda.