Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að það hafi komið í ljós í ræðum margra hér í morgun að þetta kerfi er um margt sérstakt, svo ekki sé meira sagt. Það er greinilega hægt að fikta við þetta fyrirtækjunum í hag. Hv. þingmaður notaði orð eins og plástrað kerfi og nefndi þá Tryggingastofnun sem stagbætt kerfi. Hv. þingmaður nefndi líka varnargirðingar, það er eins og alltaf sé verið að slá skjaldborg utan um þennan hóp umfram marga aðra sem mörg okkar eigum erfitt með að skilja af því að þetta er kannski sá hópur sem er í hvað bestri stöðu á landinu. Einhverra hluta vegna líður mér þannig að hægt sé að misnota þetta kerfi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún eðlilegt að þetta kerfi sé viðhaft eða er hún tilbúin að horfa t.d. á hugmyndir Viðreisnar eða Samfylkingar um tímabindingu úthlutunar aflaheimilda þannig að allir sitji í raun við sama borð hvað þetta varðar, að ekki sé alltaf verið hjá Skattinum, ríkisstjórninni eða útgerðarmönnunum sjálfum af því að þeir hafa alltaf eitthvað um það að segja hvernig veiðigjaldið er? Er ekki kominn tími til þess — eins og við viljum gera þegar við horfum á úthlutunarkerfi fyrir fátækt fólk sem er stagbætt í gegnum áratugi — að taka upp nýtt og betra kerfi, gagnsærra og opnara?