Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:51]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og greinargott svar. Ég er samt á sama stað og ég var hér í mínu fyrra andsvari, þ.e.a.s. við verðum alltaf að horfa heildstætt á alla greinina, afleidd störf og hverju hún skilar til samfélagsins, ríkisins o.s.frv. Ég get alveg tekið undir það að hluta til að við þurfum að endurskoða gjaldstofninn, þ.e.a.s. veiðigjöldin. Það er í gangi ákveðin vinna á vegum hæstv. matvælaráðherra um þessar mundir að fara ofan í það og væntanlega fáum við tillögur úr þeirri vinnu á næsta eða þarnæsta ári.

Við verðum alltaf að horfa til þess líka að atvinnugreinin sem slík þarf að geta þróast á vissan hátt. Vissulega þurfum við að hafa ákveðna eftirfylgni, utanumhald og annað. En það er að mínu viti veruleg einföldun ef við erum farin að taka allar þær stofnanir eins og Landhelgisgæsluna — ef t.d. útgerðin á ein að bera kostnað af henni. Það er náttúrlega engan veginn hægt að færa rök fyrir því. Landhelgisgæslan hefur mun meira hlutverki að gegna en bara að fylgjast með fiskiskipum landsins, svo að það sé sagt. Við þurfum alltaf í þessari umræðu að horfa á stóra mengið, hverju sjávarútvegurinn skilar til þjóðarinnar. Ég ætla alls ekki að draga úr því að við þurfum að endurskoða veiðigjöldin og hvernig við útdeilum arði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar til okkar allra.