Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

tekjustofnar sveitarfélaga.

63. mál
[15:16]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1994 varðandi gjaldstofn fasteignaskatts. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi og er nú lagt fram efnislega óbreytt. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Frumvarpið byggir á þeirri meginreglu að skattar eigi aldrei að hækka sjálfkrafa, heldur þurfi alltaf að fara fram umræða hjá þar til bærum yfirvöldum sem síðan leiðir til ákvörðunar sem einhver eða einhverjir bera pólitíska ábyrgð á.

Þannig er því ekki farið með fasteignaskatta. Fasteignaskattur hefur hingað til verið ákvarðaður sem hlutfall af fasteignamati en samkvæmt lögum er það jafnan uppfært árlega miðað við gangverð fasteigna sem ætla má að fáist fyrir þær við sölu á almennum markaði. Þannig hækka fasteignaskattar sjálfkrafa ef markaðurinn hækkar, alveg sama hverjar ástæður hækkunarinnar eru. Þó að fasteignaverð hækki þá leiðir það ekki sjálfkrafa til hækkunar launa eða þess fjár sem fólk eða fyrirtæki hafa til ráðstöfunar. Það er í raun ekkert vit í því að í ástandi eins og verið hefur á fasteignamarkaði, þar sem eignaverð hefur hækkað gríðarlega að undanförnu, leiði það sjálfkrafa til meiri álagningar á fyrirtæki eða venjulegt fólk sem er ekki í neinum fasteignahugleiðingum.

Undanfarin misseri hefur fasteignaverð farið ört hækkandi og þar af leiðandi valdið miklum hækkunum á fasteignaskatti í krónum talið, óháð hlutfalli skattsins í einstökum sveitarfélögum. Sú aukna skattbyrði sem í þessu felst hefur lagst þungt á viðkvæma hópa, t.d. þá sem hafa komið sér upp skuldlausu eða lítið skuldsettu húsnæði en þurfa, vegna elli, örorku eða annarra aðstæðna, að reiða sig á lágmarksframfærslu almannatryggingakerfisins og hafa takmarkaða eða enga möguleika á að auka tekjur sínar. Hin aukna skattbyrði hefur þannig skert lífskjör þessara hópa. Það má aldrei gleyma því grundvallaratriði að þótt verðmat eignar hækki af því að eign í sama hverfi var keypt á uppsprengdu verði eykst ekki um leið ráðstöfunarfé eiganda húsnæðisins.

Með þessu frumvarpi er því lagt til að hætt verði að miða við stofn álagningar fasteignaskatts við fasteignamat og þess í stað verði sá skattur framvegis lagður á sem tiltekin fjárhæð á hvern fermetra flatarmáls fasteigna sem er föst hlutlæg og fyrirsjáanleg stærð. Einnig þarf að gæta sanngirni og við fyrstu ákvörðun þeirrar fjárhæðar verður að gæta þess að sú álagning sem af henni leiðir verði ekki meira íþyngjandi en annars hefði orðið samkvæmt þeim reglum sem gilt hafa hingað til og gæta skal meðalhófs við þá ákvörðun. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög búi yfir og geti haft greiðan aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum úr opinberum gagnagrunnum til að ákvarða þessa fjárhæð þannig að hún raski sem minnst högum sveitarfélags og einstakra íbúa þess. Þegar nauðsyn krefur verður að vera heimilt að hækka fjárhæð skattsins en þá er lagt til í frumvarpinu að slík ákvörðun skuli vera rökstudd og birt opinberlega. Enn fremur er lagt til að sú hækkun megi hlutfallslega að hámarki nema 2,5% frá fyrra ári, í samræmi við opinbert verðbólgumarkmið stjórnvalda svo að skatturinn kyndi ekki undir frekari verðbólgu.

Við þurfum að koma í veg fyrir hækkanir eins og eru t.d. nú í Reykjavík þar sem fasteignamatið hækkar á einu bretti um 21,7% af íbúðarhúsnæði, sem þýðir samsvarandi hækkun fasteignaskatts. Heimilin eru ekki ótæmandi vasar og í þetta sinn kemur þessi hækkun ofan á verðbólgu upp á 9,4% og þær ófyrirgefanlegu hækkanir vaxta sem hafa dunið á heimilum og fyrirtækjum á undanförnum mánuðum. Það liggur fyrir að fasteignaskattar á Íslandi eru hæstir á Norðurlöndunum reiknaðir sem hlutfall af landsframleiðslu, eða 2% samanborið við t.d. 1% í Svíþjóð. Þessi aukna skattbyrði getur komið niður á atvinnurekstri, einkum smáfyrirtækjum og verslunum þar sem húsnæðiskostnaður er tiltölulega stór útgjaldaliður. Enn fremur hafa komið fram þau sjónarmið að óeðlilegt sé að álagðir skattar hækki með sjálfvirkum hætti án atbeina þess sveitarfélags sem raunverulega leggur þá skatta á íbúa sína. Þess í stað gerir frumvarpið ráð fyrir því að fjárhæð fasteignaskatts verði alltaf háð ákvörðun sveitarstjórnar fyrir hvert ár í senn og þurfi að vera rökstudd og birt opinberlega svo að slíkar ákvarðanir samræmist sem best stjórnsýslulögum og vönduðum stjórnsýsluháttum.

Ég tel einboðið að þingmenn þvert á flokka geti sameinast um að sjálfvirkar skattahækkanir eigi aldrei að líðast. Ákvörðun skatta krefst pólitískrar ábyrgðar og stjórnmálamenn eiga aldrei að geta yppt öxlum og firrt sig ábyrgð á þeim sköttum sem lagðir eru á umbjóðendur þeirra með því að fela sig á bak við markaðinn. Þetta frumvarp setur ábyrgðina á fasteignasköttum á herðar stjórnmálamanna sem hafa boðið sig fram til að standa undir þeirri ábyrgð. Þetta felur í raun bara tvennt í sér. Í fyrsta lagi að miða við eininguna fermetra við ákvörðun fasteignagjalda og í öðru lagi að sveitarfélög gæti meðalhófs við ákvörðun einingaverðs þannig að það verði ekki meira íþyngjandi en þær reglur sem gilt hafa hingað til.

Ég vænti þess að þingheimur veiti frumvarpi þessu brautargengi.