153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

lækkuð stofnframlög til húsnæðisuppbyggingar.

[15:03]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er stórfrétt af fjárlögum sem ég verð að taka upp í fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra. Hæstv. ríkisstjórn helmingar framlög til húsnæðisuppbyggingar á árinu 2023. Eftir öll fögru fyrirheitin, eftir alla blaðamannafundina og eftir öll stóru orðin frá hæstv. ráðherrum Framsóknarflokksins þá er þetta niðurstaðan sem okkur var kynnt á fundi hv. fjárlaganefndar í morgun, að ríkisstjórnin ætli að helminga stofnframlög til húsnæðisuppbyggingar og reyndar rúmlega það. Framlögin fara úr 3,7 milljörðum kr. á ári niður í 1,7 milljarð. Þannig ætlar hæstv. ríkisstjórn beinlínis að búa til stórfelldan samdrátt í uppbyggingu íbúða á næsta ári á Íslandi. Ég ætlaði hreinlega ekki að trúa þessu. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef komið hingað upp og kallað eftir skýrum, fjármögnuðum tillögum um alvöru aðgerðir í húsnæðismálum sem eru stærsta einstaka kjaramálið fyrir fólkið í landinu. Hæstv. innviðaráðherra hefur margítrekað svarað því til að það væri ekki að marka, fyrst fjármálaáætlun og síðan fjárlög, því að hann ætlaði að vinna tillögur núna í haust og leggja þær fram við 2. umr. fjárlaga. Hann sagði m.a. orðrétt, með leyfi forseta, að það yrði „í síðasta lagi við 2. umr. fjárlaga komið með tillögu um að […] færa ákveðna fjármuni yfir til þess að fjármagna stofnframlögin í almennu íbúðirnar, í hlutdeildarlán þar sem það á við, hugsanlega yfir í félagslega íbúðakerfið“.

Þetta sagði innviðaráðherra í umræðu um fjárlögin þann 15. september sl. og nú er búið að kynna breytingartillögu ríkisstjórnarinnar við eigin fjárlög. Þar blasir við stórfelldur niðurskurður og engin aukning í vaxtabætur og húsnæðisbætur — þvílíkt innlegg í viðkvæma kjarasamninga. Ég vil því spyrja hæstv. innviðaráðherra: Er þetta í alvöru talað öll Framsóknarsóknin í húsnæðismálum, helmingi lægri framlög til uppbyggingar?