153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

lækkuð stofnframlög til húsnæðisuppbyggingar.

[15:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa fyrirspurn upp úr því að vanþekkingin á málinu er svona mikil. Við höfum í langan tíma verið að reyna að bæta gagnaöflun á þessu sviði. Smátt og smátt hefur okkur tekist það. Það sem hefur skýrst núna í haust og á síðustu mánuðum er að það var ofmat á fólksfjölda, 10.000 manns, eitthvað um það bil. Það hefur komið í ljós að við erum að byggja fleiri íbúðir í ár en á mörgum undanförnum árum. Það hefur líka komið í ljós að það er talsvert mikil þensla sem hefur valdið því, eigum við að segja, að aðilar hafa kannski síður farið af stað í sum verkefni en ella. Hugsanlega er það líka lóðaskortur. Ég er að vísa hér til stofnframlaganna, þar sem við höfðum úr u.þ.b. 2 milljörðum að spila umfram það sem við gátum nýtt á þessu ári og tæpa 2 milljarða á næsta ári. Við hyggjumst fá heimild til þess að færa þessa 2 milljarða yfir og þannig verði um 4 milljarðar til stofnframlaga á næsta ári, sem að mati HMS við þær aðstæður sem uppi eru, þær byggingar sem eru í gangi, þann stutta tíma sem við höfum til að byggja og gera samninga, duga á næsta ári.

Við komum því inn í fjármálaáætlunina á næsta ári með fjármagn til áranna þar á eftir til að undirbyggja rammasamningana við sveitarfélögin. Eins og hv. þingmaður veit mætavel þá munum við ekki klára húsnæðismálin á einu ári, á árinu 2023, heldur er þetta verkefni næstu ára. Við erum sem betur fer í stakk búin, miðað við fjárlögin og þær fjárheimildir sem við höfum ef við yfirfærum á milli ára, til að takast vel á við árið 2023 og komast þannig af stað í að klára rammasamninga við sveitarfélögin. Ég hlakka til samstarfsins við hv. þingmann um að ljúka því verki.