153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðlegar fjárfestingar í nýsköpun.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í umsögnum um drög að frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu, sem var í samráðsgátt stjórnvalda, var mjög skýr og mjög afdráttarlaus umsögn frá íslenskum frumkvöðlum og forstjórum nýsköpunarfyrirtækja sem hafa sótt tugi milljarða erlenda fjárfestingu í íslensk nýsköpunarfyrirtæki undanfarin ár. Þeir segja m.a., með leyfi forseta:

„Það er álit umsagnaraðila að frumvarpsdrögin myndu, yrðu þau að lögum í óbreyttri mynd, hafa verulega íþyngjandi áhrif á íslensk nýsköpunarfyrirtæki og hafa verulega neikvæð áhrif á möguleika þeirra á að verða sér úti um alþjóðlega fjármögnun en slík fjármögnun, sem oft er sérhæfð, skiptir íslenskt nýsköpunarumhverfi sköpum enda lítið um sérhæfða fagfjárfesta á Íslandi sökum smæðar landsins.“

Þeir eru því mjög neikvæðir. Ég vil líka benda á í þessu samhengi að bæði erlendar stofnanir, OECD, en líka Viðskiptaráð undanfarið og Samtök atvinnulífsins hafa bent ítrekað á að samkeppnishæfni vegna alþjóðasamskipta og fjárfestinga hefur fallið verulega hér á Íslandi síðastliðin tíu ár. Þetta erlenda fjárfestingarumhverfi er að verða mjög óhagfellt og ýtir ekki beint undir samkeppnishæfni landsins.

Umsagnaraðilar segja síðan áfram, með leyfi forseta:

„Það er okkar álit að ef lögin yrðu að veruleika í óbreyttri mynd þá myndu íslenskir frumkvöðlar í auknum mæli kjósa að stofna fyrirtæki erlendis um starfsemina til að komast hjá íþyngjandi áhrifum þess — sem væri mikið tjón fyrir íslenskt samfélag og öfugþróun.“

Frumvarpið sé því „…háð slíkum ágöllum að verulegri hættu geti stafað að íslenskri nýsköpun og hátækniþróun“.

Ég vildi spyrja ráðherra nýsköpunarmála: Mun hann beita sér fyrir því að þetta frumvarp verði lagt til hliðar eða að gerðar verði verulegar breytingar á því sem verði líka hagfelldar fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlaumhverfi?