153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðlegar fjárfestingar í nýsköpun.

[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Þetta skiptir nefnilega máli, við erum að ræða hér frumvarp sem virðist ná langt út fyrir þau svið sem varða þjóðaröryggi og mikilvæga innviði. Þeir sem skrifa undir þetta hafa m.a. verið með fyrirtæki sem við þekkjum vel: Lucinity, Sidekick Health, Meniga, Avo, DTE, Oculis, Oz, Kerecis — líftækni, gervigreind — Carbon Recycling International. Þetta eru raddir sem við verðum auðvitað að hlusta á og taka alvarlega. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nýsköpunarmála hvort það hafi ekki örugglega verið haft samráð við hans ráðuneyti við samningu þessa frumvarps. Ef svo er ekki þá er einhver veruleg brotalöm í Stjórnarráðinu. En um leið verð ég líka að hrósa ráðherra fyrir þetta svar sem lýsir ákveðnum áhyggjum, verulegum áhyggjum, af þessu máli. Ég hef sjaldan séð ráðherra í ríkisstjórn nokkurn veginn slátra máli annars ráðherra í ríkisstjórn jafn snyrtilega og gert var hér áðan.