153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra eldri borgara.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við erum að tala um fólk sem hefur rétt rúmar 200.000 kr. frá almannatryggingum, eldri borgara sem hafa það verst og eru á strípuðum bótum almannatrygginga, sem eru bara í sárafátækt. Verst setta fólkið okkar bíður í röð eftir mat, fær ekki matarbita þar sem allt klárast og verður að fara aftur í röð við næstu úthlutun og mæta þá mun fyrr. Við erum ekki bara að skatta fátækt, við erum að skatta sárafátækt. Hvernig væri nú einu sinni að hlusta með báðum eyrum á þetta fólk, verst setta fólkið okkar, og taka eldri borgarana með inn í dæmið? Við erum að tala um 360 milljónir til 6.000 eldri borgara. Setjum það í samhengi við það sem var gert í Covid þar sem við vorum með hundruð milljarða. Það er alveg óskiljanleg ef hægt er að skilja þessa verst settu eldri borgara eftir á strípuðum bótum almannatrygginga. Ég trúi því ekki að það verði gert.