153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra eldri borgara.

[15:23]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir spurninguna og umræðuna um þetta mál. Mig langar að bæta því við svar mitt frá því áðan að við megum heldur ekki gleyma því að bæði ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar fá greidda desemberuppbót og orlofsuppbót. Það vill gleymast í umræðunni að þar er að sjálfsögðu líka verið að mæta fólki í desember, sem er jú útgjaldahár mánuður. Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði hér áðan að hugmyndin á bak við eingreiðslurnar á sínum tíma var sú að mæta örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum þar sem ekki var búið að laga greiðslukerfið líkt og búið er að gera varðandi ellilífeyrisþega. Það er ástæðan fyrir því að ráðist var í þá aðgerð á sínum tíma og það er ástæðan fyrir því að sú aðgerð er enn í gangi í dag.