153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðleg vernd flóttamanna .

[15:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég sé ekki fyrir mér að einhverjir úrskurðir verði gerðir afturvirkir, þ.e. ef það yrði breyting á afgreiðslu mála hjá Útlendingastofnun og svo aftur kærunefnd þá get ég ekki séð að það yrði afturvirkt. Hvort þetta hafi þau áhrif að það verði við framtíðarafgreiðslu horfið frá þeirri niðurstöðu sem fékkst hjá kærunefnd útlendingamála þá veit ég, eins og ég sagði í svari mínu áðan, að þetta er stöðugt til endurskoðunar. Hér er auðvitað alltaf verið að skoða þessar umsóknir, hvaðan sem þær koma, og það er stöðugt til endurskoðunar matið á því hverjar aðstæður eru í þessum löndum. Ég ber miklar væntingar til þess, ekki síst út frá íbúum Venesúela, að þessi samningur sem gerður er núna og nær til framkvæmda, undir stjórn Sameinuðu þjóðanna, verði vonandi til þess að bæta lífsskilyrði það mikið í þessu landi að fólk hætti að flýja þaðan.