153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

úrræði fyrir heimilislaust fólk.

[15:35]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið og ég tek undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi Ylju, neyslurýmisins. Það var margt gott sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, m.a. um mikilvægi þess að halda áfram þessari þjónustu sem er í gangi núna. En ég vil þá líka ítreka spurninguna um hvort það sé einhver vinna í gangi til að gera Ylju að staðbundnu neyslurými sem er bundið við húsnæði en er ekki færanlegt, er ekki í bíl og hvort þetta sé bara tímabundið húsnæði, af því að ég veit að Ylja er með samning við Reykjavíkurborg akkúrat núna. Og þar sem við erum að tala um fréttir þá birtist sú frétt líka í morgun að fyrirhugað útlendingafrumvarp hæstv. dómsmálaráðherra feli í sér þá breytingu að barnlausir og heilbrigðir fullorðnir einstaklingar verði sviptir aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sem væri ekki í frásögur færandi enda ekkert nýtt að hæstv. dómsmálaráðherra hafi uppi fjandsamlegar ráðagerðir í garð útlendinga, en þessi umrædda lagabreyting snertir verksvið heilbrigðisráðherra. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fá á hreint hvort heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) deili þeirri sýn með dómsmálaráðherra sem hefur lagt fram í frumvarpi sínu um útlendingalög að svipta eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, (Forseti hringir.) aðgerð sem er sérstaklega varhugaverð í ljósi undangenginnar umræðu um heimilislaust fólk. Tekur hæstv. heilbrigðisráðherra undir þessa sýn?