Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

Staða íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni og tækifæri í markaðssetningu.

[16:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar kvótakerfið var sett á upphaflega var tekið stórt skref í því að gera fiskveiðar sjálfbærar og eftir því var tekið á alþjóðlegum vettvangi. Þrátt fyrir ýmsar breytingar á kerfinu í gegnum árin, sem hafa sumar hverjar leitt til samþjöppunar og auðsöfnunar á hendur fárra aðila, þá er grunnurinn enn sá að tryggja sjálfbæra nýtingu. Það er hins vegar afar slæmt að á undanförnum árum höfum við dregið úr fjárfestingum í rannsóknum og eftirliti. Þannig eru bæði Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa fjársvelt og þurfa sífellt að draga saman seglin og hagræða. Þetta er sérstaklega slæmt þegar kemur að eftirlitinu, en um helmingur eftirlitsferða Fiskistofu með dróna sýndi fram á brottkast. Samanburður á aflasamsetningu þegar eftirlitið á sér stað og þegar það á sér ekki stað bendir einnig til mikils brottkasts og í einstaka tilfellum hefur allt að 30% afla báts verði kastað frá borði þar sem hann var ekki af þeirri stærð sem uppfyllti sölusamninga við útgerðina. Á sama tíma telur Fiskistofa að löndun fram hjá vigt sé stórfelld eða allt að 10%. Bæði þessi atriði leiða til þess að sjálfbærnimarkmiðin nást jafnvel ekki og uppfylla stundum ekki þau skilyrði sem alþjóðlegar vottanir um samþykki gera. Þarna er mikil orðsporsáhætta og allt tal um sjálfbæra umgengni við auðlindir hafsins er jafnvel bara tálsýn ein.