Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

Staða íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni og tækifæri í markaðssetningu.

[16:06]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu ræðum við m.a. tækifæri íslensks sjávarútvegs og fiskeldis og tækifærin eru fjölmörg. Þá vil ég sérstaklega benda á tækifæri í nýsköpun og þróun innan geirans en á því sviði stendur Ísland framarlega. Á síðustu árum hafa íslensk fyrirtæki selt tæknilausnir erlendis í miklu magni með tilheyrandi velmegun og útflutningstekjum. Erlendir aðilar á sviði sjávarútvegs og fiskeldis fjárfesta þar í íslensku hugverki og við eigum enn mikið inni, hvort sem það er nýting 100% sjávaraflans í mat eða annað, notkun fiskafurða í gerð sárabinda eða hönnun og framleiðsla tækja fyrir sjávarútveg, matvælaiðnað eða flutningsgeirann. Þetta eru allt saman íslenskar hugmyndir framkvæmdar af íslenskum aðilum. Þessi hugverk stuðla ekki einungis að betra atvinnulífi og auðveldari framleiðslu heldur eru þau oft skref í átt að kolefnishlutleysi og að við náum okkar markmiðum í loftslagsmálum ásamt vissulega tekjum inn í samfélagið. Sérstaða Íslands í haftengdri nýsköpun og framleiðslu er öfundsverð um allan heim og mun mikilvægi hennar einungis aukast með nýjum áherslum og þörf á frekari útflutningstekjum. Því eiga íslensk stjórnvöld að byggja grunn á góðu rekstrarumhverfi í þeim geira. Þannig fjölgum við tækifærum og tryggjum góðar horfur til framtíðar. Við Íslendingar erum sérfræðingar í hafinu og öllum því tengdu. Nýtum okkar þekkingu, reynslu og kunnáttu og höldum áfram á þeirri vegferð sem við erum í.