Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

Staða íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni og tækifæri í markaðssetningu.

[16:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég þakka mikilvæga umræðu um áhugavert mál en ég átta mig ekki alveg á því hvert megininntakið er, hver boðskapurinn eða skilaboðin með þessari umræðu eru. Er hugmyndin sú að íslenska ríkið fari að sjá fyrir markaðssetningu íslensks sjávarfangs eða er íslenskum útgerðum ekki treystandi til að gera það? Íslenskur sjávarútvegur hefur nefnilega staðið sig ótrúlega vel í samkeppni við sjávarútveg í öðrum löndum. Ísland er eitt af örfáum, ja eiginlega bara undantekning meðal landa í því að við erum ekki með ríkisstyrktan sjávarútveg. Síðast þegar ég athugaði þá var meira að segja í Noregi ríkisstuðningur við hvert landað tonn, sem nam á þeim tíma um 20.000 íslenskum kr. Þrátt fyrir að Ísland sé fjær mörkuðunum og þurfi oft og tíðum að fylgja stífum reglum þá hefur íslenskum sjávarútvegi tekist ótrúlega vel upp. En það snýst aðallega um fyrirsjáanleika. Þurfum við ekki að verja fyrirsjáanleika íslensks sjávarútvegs umfram allt og gera sjávarútvegsfyrirtækjum þar með kleift að gera áætlanir og vinna fiskinn? Því að þótt töluvert, reyndar mjög lítill minni hluti en samt talsvert, af fiski fari óunninn úr landi þá er það ekki hvað síst vegna þess að menn hafa ekki fyrirsjáanleikann sem ella hefði getað nýst til þess að vinna fiskinn og flytja hann svo út fullunninn.

Nú mun fara fram í matvælaráðuneytinu vinna við að ná þjóðarsátt í sjávarútvegsmálum. Sá brandari virðist ekki vera orðinn gamall enn þá og við sjáum hvað kemur út úr því. En aðalatriðið er það, hver sem niðurstaðan verður og hver sem niðurstaðan verður úr þessari umræðu, að við viðhöldum fyrirsjáanleika sjávarútvegsins og við verjum minni aðilana, minni fyrirtækin sem hefur mjög ítrekað hallað á vegna stefnu stjórnvalda í sjávarútvegsmálum og ýtt undir samþjöppun og vöxt stærri fyrirtækja sem njóta hlutfallslega miklu sterkari stöðu en minni fyrirtækin. Þetta tvennt þarf að fara saman sem niðurstaða þessarar umræðu og vonandi sem niðurstaða vinnunnar í matvælaráðuneytinu, að við verjum hlutfallslega minni fyrirtækin og við viðhöldum fyrirsjáanleika fyrir íslenskar útgerðir.