Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

Staða íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni og tækifæri í markaðssetningu.

[16:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Tilgangurinn var að vekja máls á mörgum mikilvægum þáttum sem snerta þessa grein sem eru óskaplega sjaldan hluti af hinni pólitísku umræðu, einfaldlega vegna þess að það er svo mikið ósætti um þann hluta sem varðar aðgang að auðlindinni og óréttlátan hlut þjóðarinnar þar að önnur mál komast ekki á dagskrá. Mér finnst vera mikill mánudagur í hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og mikill vilji til að gera einfaldan hlut fremur flókinn. Hér er einfaldlega verið að ræða ákveðna stöðu og hvernig eigi að horfa á hana og mögulega bregðast við. Vitaskuld á að ræða hér í sal brýn mál án þess að í því felist einhver tillaga um að ríkið eigi að taka þau öll í fangið. Það erum við að gera hér alla daga í þingsal, alla daga vikunnar, þannig að varla trúir þingmaðurinn því að hér sé bara hægt að ræða þau mál með þeim formála að ríkið eigi að taka verkefnið í fangið? Ég er sannarlega ekki að leggja það til og ég held að enginn annar þingmaður hafi skilið umræðuna þannig. Ég vildi einfaldlega ræða það hvort í þeirri stöðu að við erum að sjá stígandi í útflutningi á gámafiski felist einhver ógn við gæði íslensks vörumerkis á markaði, einhverjar hættur. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að bönn séu ekki vænleg í þeim sporum en það á að vera metnaður okkar allra, vegna þess að íslenskur sjávarútvegur er hluti af okkar sögu, er hluti af okkar menningu, að ræða það hver staða greinarinnar er á Íslandi og á erlendum mörkuðum og að við ræðum það hvar sérstaðan á að liggja. Er ástæða til að skoða einhverja hvata varðandi gámafiskinn? Ég veit það ekki. En mér fannst fullt tilefni til að velta þessu upp einfaldlega vegna þess að ég hef metnað fyrir hönd greinarinnar og ég held og vona að það eigi við um þingmenn alla hér í þessum sal.