Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

Staða leikskólamála.

[17:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í seinni ræðu minni að koma aðeins inn á menntunarmál leikskólakennara. Hæstv. ráðherra sagði hér í ræðu sinni að honum hugnaðist ekki að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft, þ.e. að nám leikskólakennara sé fimm ár; grunnnám og tveggja ára mastersnám, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. (Gripið fram í.)— Gott. Hæstv. ráðherra segir að þetta hafi verið réttur skilningur. Ég held engu að síður að þetta sé eitt af þeim atriðum sem við verðum að ræða í tengslum við þann, ég leyfi mér að segja vanda sem við stöndum frammi fyrir, sem er sá að það passar ekki saman, annars vegar fjöldi barna, geta sveitarfélaga til að veita þjónustuna, fjöldi menntaðra leikskólakennara og fleiri þættir sem okkur hefur einhvern veginn ekki tekist að stilla þannig af að harmóneri vel saman. Hefur það bætt leikskólastarfið að því marki að það réttlæti að allir leikskólakennarar séu tveimur árum lengur í háskóla til að öðlast þau réttindi? Liggur einhver greining fyrir á því, einhver rannsókn? Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra kæmi inn á það hér í lokaræðu sinni, vinnist tími til. Ég held að við verðum að skoða þetta allt með opnum huga; menntunina, fæðingarorlofið, heimildir til ráðstöfunar þess. Hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom inn á hugmyndir um að lengja fæðingarorlofið. Ég er ekki sannfærður um að það sé rétta leiðin á þessari vegferð en það er sjálfsagt að ræða það eins og annað. En í öllu falli þurfum við að kafa með opin augun ofan í þau vandamál sem við okkur blasa í þessum efnum því að annars verða meira og minna öll sveitarfélög þeirri stöðu undirorpin sem Reykjavíkurborg er núna, að því er virðist.