Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145. Það er rétt að rifja upp að þjóðaröryggisstefna, sú sem hefur verið í gildi, var samþykkt á Alþingi 2016. Þar er kveðið á um að þjóðaröryggisráði beri m.a. að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti í samræmi við ákvæði laga um þjóðaröryggisráð. Þar er átt við heildarendurskoðun stefnunnar en ráðið getur þess á milli lagt til við Alþingi breytingar á einstökum þáttum stefnunnar sem kunna að vera aðkallandi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mælt fyrir um að áfram verði unnið á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar en kallað eftir frekari skoðun á þeim fjölþættu ógnum sem samfélög standa frammi fyrir vegna örra tæknibreytinga og áskorana í loftslagsmálum.

Við höfum nú á vettvangi þjóðaröryggisráðs rætt þessa endurskoðun í töluverðan tíma og raunar hófst umræðan um endurskoðun á árinu 2021, einmitt þegar fimm ár voru liðin frá samþykkt stefnunnar. Það má því segja að þjóðaröryggisráð hafi bæði fyrir og eftir kosningar fjallað um þessa endurskoðun. Það var ekki fullkomlega eins skipað en þetta er niðurstaða af vinnu ráðsins. Eðli máls samkvæmt er þetta plagg eitthvað sem við höfum ekki rætt mikið út á við á meðan það var í vinnslu en við áttum hins vegar einn ágætan fund með hv. utanríkismálanefnd þar sem óskað var eftir sjónarmiðum inn í þessa vinnu.

Eins og áður byggist þjóðaröryggisstefnan á víðtækri skilgreiningu öryggishugtaksins þar sem litið er til hnattrænna, samfélagslegra og mannlegra áhættuþátta. Stefnan felst í virkri utanríkisstefnu, alþjóðasamstarfi, almannaöryggi og tekur mið af samþættingu og innri tengslum öryggisþátta. Í stefnunni er að finna meginmarkmið í þjóðaröryggismálum, bæði í innlendu og alþjóðlegu samhengi.

Það var niðurstaða þjóðaröryggisráðs að þessi stefna hefði reynst vel. Hún hefði staðið fyrir sínu á tímum þar sem ýmsar áskoranir hefðu verið fyrir hendi. Ég nefni heimsfaraldur, stríðsátök, almannavarnaástand hér á landi nokkrum sinnum vegna náttúruvár og að sjálfsögðu viðvarandi ógnir eins og loftslagsvána. Því var það niðurstaða okkar að þessi stefna, sem og ráðið sjálft, hefði mótast með farsælum hætti á þeim tíma sem það hefur verið starfandi. En eins og kunnugt er er þjóðaröryggisráð ekki stjórnvald heldur mun frekar samráðsvettvangur aðila sem koma að þjóðaröryggismálum. Til upprifjunar þá sitja þar auk forsætisráðherra utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri, fulltrúi Landsbjargar og fulltrúi meiri hluta og minni hluta á Alþingi.

Stefnan byggir á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi. Þá vil ég sérstaklega vekja athygli á því að tillagan er í raun og veru lögð fram út frá breytingum á gildandi þjóðaröryggisstefnu þar sem breytingarnar voru ekki veigamiklar. Nú hef ég þegar farið yfir af hverju það er. Við viljum hins vegar leggja aukna áherslu á lýðræðislegt stjórnarfar í upphafinu þannig að við ræðum hér stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins. Þessi áhersla — takk — á innviði … (Gripið fram í.) Já. (Gripið fram í.) Svona eiga þingflokksformenn að vera. En hvar var ég stödd? Já, grunngildi þjóðarinnar; ég nefni sérstaklega lýðræðislega stjórnarhætti hér en um önnur grunngildi er einnig fjallað í stefnunni. Vernd grundvallarréttinda og réttaröryggi borgaranna ásamt stöðugleika í stjórnskipulegu, efnahagslegu, menningarlegu og félagslegu tilliti eru meðal þeirra grundvallargilda sem borgaralegt og þjóðfélagslegt öryggi hvílir á. Grundvallarforsenda stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.

Í stefnunni eru tilgreindar áherslur sem ríkisstjórnin á að framfylgja og í samræmi við það sem kom fram þegar þessi stefna var rædd á sínum tíma árið 2016 þá hafa áherslur stefnunnar allar jafnt vægi. Ákvarðanir stjórnvalda er varða framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, í samræmi við þær áherslur sem þar er kveðið á um, eru svo teknar í þeim ráðuneytum sem falin hefur verið ábyrgð á tilgreindu stjórnarmálefni, þannig að þjóðaröryggisráð hefur í störfum sínum leitast við að fylgja eftir þeim þáttum sem eru tilgreindir í þjóðaröryggisstefnunni, kalla ráðuneyti til fundar við ráðið, þ.e. þau ráðuneyti sem ekki eiga þar fasta fulltrúa. Ég vil t.d. nefna að fjarskiptamál hafa verið mikið rædd á fundum þjóðaröryggisráðs, umhverfis- og orkumál hafa verið rædd og matvælaöryggi og fæðuöryggi hefur verið rætt sérstaklega og þá hafa viðeigandi ráðuneyti verið kölluð inn.

Ógnir og áskoranir í öryggismálum eru síbreytilegar og þær eru flóknari en áður og þar hefur þjóðaröryggisráð, eins og ég nefndi hér, sérstaklega horft til hraðrar tækniþróunar í net- og upplýsingatækni sem hefur að sjálfsögðu leitt til margvíslegra framfara en um leið nýrra áskorana. Það skiptir máli að við nýtum þau tækifæri sem felast í tæknibreytingunum af ábyrgð og tryggjum að þær verði til að styrkja þau grunngildi sem liggja þjóðaröryggisstefnu til grundvallar og endurspeglast líka í stjórnarskránni. Á hinn bóginn getur andvaraleysi á þessu sviði grafið undan lýðræðislegu stjórnarfari og grunngildum á kostnað mannréttinda og lýðræðis og þannig hefur hnattvæðing og hröð tækniþróun gjörbreytt stöðunni á alþjóðavettvangi. Þá er uppi ný staða í öryggismálum Evrópu eftir ólöglega, ólögmæta og hryllilega innrás Rússa í Úkraínu. Aukin spenna í alþjóðasamskiptum kallar á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum fyrir utan afleidd áhrif af innrásinni.

Þá kem ég aftur að því sem ég byrjaði á að nefna; hvað við erum að gera með þessari endurskoðun. Við viljum árétta það sem lýtur að lýðræðislegu stjórnarfari og lýðræðislegum gildum. Við áréttum einnig vernd mikilvægra innviða, ekki bara í upphafi heldur einnig síðar í breytingartillögunum. Við tölum um lýðræðisleg gildi aftur þegar við tölum um 1. gr. og leggjum þar sérstaka áherslu á, í tillögu, mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til, enda er það okkar reynsla þegar upp koma alvarlegir atburðir, hvort sem það er heimsfaraldur, eldgos, óveður eða hvað það er, að þá skipti máli að ráðuneyti og stofnanir vinni þétt saman. Síðan er kveðið sérstaklega á um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu þar sem tiltekin er norræn samvinna, evrópsk samvinna og alþjóðleg samvinna. Það má velta því fyrir sér, og einhverjir hafa gert það í samtölum um þessi málefni, af hverju við séum að tiltaka þetta sérstaklega svona. En vissulega er það svo að norræn samvinna er líklega nánasta samvinna sem við Íslendingar eigum almennt. Norrænir forsætisráðherrar eiga tíða fundi og samtöl um ýmis málefni og þá ekki síst málefni sem lúta að öryggi okkar og ég get rifjað upp fundi sem við áttum t.d. í heimsfaraldri. Ég vil nefna evrópska samvinnu sem hefur reynst okkur farsæl, bæði í heimsfaraldri en ekki síður nú í stríðsrekstri Rússa þar sem við höfum kosið að standa mjög þétt með þeim refsiaðgerðum, þeim þvingunaraðgerðum, sem Evrópusambandið hefur beitt Rússa vegna innrásarinnar. Þar hefur Ísland innleitt allar þær þvingunaraðgerðir og talað af krafti fyrir þeim þannig að það er ekki óeðlilegt að tiltaka þetta sérstaklega, tel ég vera.

Þá vil ég nefna að hér er sérstaklega talað um hafsvæðin umhverfis Ísland og þar erum við bæði að horfa til umferðar í kringum landið en einnig verndar sæstrengja. Núverandi stjórnvöld beittu sér fyrir undirbúningi að nýjum sæstreng sem margfaldar fjarskiptaöryggi hér í gegnum sæstrengi. Það er sæstrengurinn Íris og hann mun nú komast í gagnið, er kominn á land á Írlandi. Þetta er eitt af því sem við teljum mikilvægt að leggja áherslu á, þ.e. hafsvæðin, umferð um þessi hafsvæði í kringum okkur og hvernig við getum tryggt aukna vöktun þar.

Við ræðum sérstaklega um styrkingu áfallaþols samfélagsins og þá kem ég aftur að hinum mikilvægu innviðum, tölum um skilvirkan og samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna við líf og heilsu fólks, umhverfi og eignir og innviði. Þetta er mjög margbrotið verkefni. Við getum bara tekið sem dæmi þau skriðuföll sem hafa orðið hér á undanförnum misserum, hversu gríðarlega miklu skiptir að innviðir séu tryggðir, ekki bara áþreifanlegir innviðir heldur vöktun, til að mynda Veðurstofunnar, sem getur skipt sköpum í þessum efnum þannig að unnt sé að bjarga fólki en líka eignum. Það á auðvitað líka við um snjóflóð og ógnir sem stafa af snjóflóðum. Við höfum einmitt upplifað snjóflóð fyrir ekki löngu síðan, á síðasta kjörtímabili. Þarna skiptir ekki bara máli að reisa varnargarða, við höfum flýtt framkvæmdum við varnargarða vegna þeirra atburða sem hafa orðið, heldur ekki síður að tryggja mjög skilvirka vöktun.

Við ákváðum að skerpa á því sem kemur hér varðandi loftslagsbreytingar þar sem segir nú:

„Að sporna við röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga, m.a. með samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum, grænni fjárfestingu og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.“

Það er mat okkar að það þurfi að ítreka þennan þátt. Þetta er auðvitað vá sem er yfir og alltumlykjandi hér á norðurslóðum þar sem við sjáum þessar breytingar gerast í raun og veru enn hraðar en annars staðar, hvort sem litið er til hafsvæðanna, norðurskautsins eða Grænlandsjökuls sem bráðnar hratt. Þarna skiptir máli að talað er um röskun á lífsskilyrðum því við þurfum auðvitað að tryggja að við séum með viðunandi áætlanir til þess að auka aftur viðnámsþrótt samfélagsins því að við vitum að það mun verða röskun á lífsskilyrðum. Jafnvel þó að við gætum náð markmiðum okkar um að halda hlýnun innan við 1,5° og jafnvel þótt við náum markmiðum okkar um að draga úr losun þá mun verða röskun á lífsskilyrðum og við erum þegar farin að sjá afleiðingar loftslagsbreytinga, og ég nefndi skriðuföllin hér áðan.

Sérstaklega er skerpt á net- og upplýsingaöryggi á öllum sviðum samfélagsins með samhæfðum aðgerðum. Þá er sérstaklega talað um ógnun við stjórnskipun, stjórnkerfi og fjarskipti, þar á meðal fjarskiptatengingar við útlönd sem er það sem varðar sæstrengina sem ég nefndi hér þar sem nú þegar eru unnið að því að auka það öryggi en líka að vakta þá, og orkuöryggi. Það er kannski ný staða þar sem við sjáum árásir á orkuinnviði í Úkraínu til að reyna að lama þrek Úkraínumanna gegn innrásarliðinu. Það skiptir nefnilega máli að við hugum ekki síður að okkar innviðum í þessu, ekki bara að við séum að tryggja fullnægjandi orkuöryggi á öllum tímum heldur að tryggja að þessir innviðir séu nægjanlega viðnámsþolnir. Ég nefni bara eitt dæmi, af því að við þurfum ekki alltaf að vera að hugsa um stríðsrekstur, við getum rætt um það rafmagnsleysi sem varð hér, langvarandi rafmagnsleysi á gervöllu Norðurlandi. Það varð til þess að við lögðum fram umfangsmikla skýrslu um aðgerðir, tíu ára áætlun, þar sem m.a. er stefnt að því að koma flutningskerfinu í jörð, sem er auðvitað lykilatriði til að tryggja betur viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart þeim áföllum sem geta dunið yfir orkukerfi. Og eins og ég segi, það þarf ekki stríðsrekstur til, það þarf hreinlega mjög vont veður.

Frú forseti. Ég gæti talað lengi um þetta og farið nánar í þá umræðu sem átti sér stað og hefur átt sér stað innan ráðsins en líka um það að hverju við höfum verið að vinna í sjálfri stefnunni. Ég hef ekki tíma til þess en segi bara hér í lokin: Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að tryggja öryggi samfélagsins og borgaranna og standa vörð um grundvallarréttindi einstaklinga. Örar breytingar hafa orðið á alþjóðavettvangi og þar hafa Íslendingar talað mjög skýrt á undanförnum árum. Ég myndi segja að Íslendingar séu orðnir virkari þátttakendur en nokkru sinni fyrr. Þessi þróun hefur hins vegar haft það í för með sér, vegna þessara öru breytinga, að það eru ný viðfangsefni á þessu sviði. Þessar ógnir sem við stöndum frammi fyrir tvinnast saman með nýjum hætti, einkum vegna tækniþróunar og nýrra samskiptaleiða. Það er ekki síst þess vegna sem við tölum sérstaklega um lýðræði í breytingartillögum okkar vegna þess að við sjáum að hinar nýju samskiptaleiðir skapa líka áskoranir fyrir okkar lýðræðislegu stjórnarhætti.

Ég ítreka það, frú forseti, að ég tel mikilvægt að við reynum að skapa sem breiðasta sátt um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland því markmið hennar er mikilvægt. Ég vonast til þess að umræðan hér í þingi og meðferð hv. utanríkismálanefndar skili því að við getum lokið þessari vinnu í tiltölulega breiðri sátt.