Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi stefna íslenskra stjórnvalda hefur verið óbreytt um áratugaskeið. Hún er ekki neitt sem núverandi forsætisráðherra er að finna upp á enda eru ekki staðsett kjarnavopn á íslenskri grundu og hafi aldrei verið, bara svo það sé alveg skýrt ef fólki finnst það eitthvað óskýrt. Ég vísaði áðan í svari við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hins vegar í ástæður þessa orðalags á sínum tíma, sem var nákvæmlega þetta, annars vegar aðildin að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna. Ekki eingöngu snýst það um mögulega umferð farartækja með kjarnavopn heldur líka kjarnorkuknúin farartæki. En síðan er það auðvitað svo, eins og öllum er hér kunnugt, að aðild að Atlantshafsbandalaginu er hluti af þessari stefnu sem var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta hér á Alþingi Íslendinga og þessi fælingarstefna sem svo hefur verið kölluð, er hluti af stefnu Atlantshafsbandalagsins. En ég ítreka:(Forseti hringir.) Hér stendur ekki til að setja kjarnorkuvopn á íslenska grundu frekar en nokkru sinni áður.