Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar 5. gr. sáttmála Atlantshafsbandalagsins er virkjuð þá gerist það eftir ítarlegt samráð sem byggir á 4. gr. þessa sama sáttmála. Þar þarf alltaf að fara fram ákveðið mat á stöðunni. Þetta er ekki eitthvað sem gerist bara yfir nóttu af því að það fara í raun og veru ákveðnir ferlar af stað þegar slík mál koma upp. Ef um er að ræða sæstrengi þá vil ég bara segja það í fyrsta lagi, það er mjög mikilvægt að það komi fram, að það er metið mjög ólíklegt að samband Íslands við umheiminn myndi rofna, þ.e. að allir þrír strengirnir færu úr sambandi. En vegna þess að það er alltaf áhætta, ekki bara út af hernaðarlegum atvikum, það getur ýmislegt gerst í svona sæstrengjum, þá var það mín ríkisstjórn sem lagði á það áherslu að efla hér fjarskiptaöryggi með nýjum sæstreng. Það er auðvitað þannig að við erum hér með miðstöð kafbátaeftirlits sem fylgist með hafsvæðinu í kringum landið. En eins erum við með okkar eigin stofnun, Landhelgisgæsluna, sem fylgist sömuleiðis með þessu hafsvæði (Forseti hringir.) þannig að það er að sjálfsögðu ákveðin vöktun á hafsvæðunum sem fer fram.