Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:52]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst, þegar ég skoða þessa breytingartillögu, að það sé verið að grauta saman, t.d. eins og í d-liðnum, varðandi vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallsþols samfélagsins gagnvart þeim. Það lýtur klárlega að varnarmálum, það lýtur ekki að utanríkisstefnu. Það lýtur ekki að almannaöryggi sem slíku. Það lýtur að varnarsamstarfi og ég get ekki séð annað í þessum lið en að verið sé að blanda saman varnarmálum, sem er vernd þessara innviða sem eru tengingar við landið sem klárlega heyra undir varnarsamninginn og NATO, við t.d. fæðuöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttir, af því að við erum bara með þjóðaröryggi landsins sem er keyrt áfram á virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi. Þar undir er kjarni varnarsamstarfs. Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi 11. tölulið, að þar sé tekið út orðið varnarmál og tekin í staðinn ákveðin klifun varðandi þjóðaröryggi, eins og það sé orðið, ég segi ekki skammaryrði, en það er verið að hlaupa fram hjá því.

Ég get ekki annað en spurt hæstv. forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Er aðild að NATO og varnarsamningurinn, 3. og 4. töluliður stefnunnar, kjarni öryggisstefnu Íslands, punktur? (Forseti hringir.) Ég veit að flokkur hennar er á móti þessum kjarnaatriðum í öryggisstefnu Íslands, en hver er raunveruleg stefna? Það væri gott að fá að heyra varðandi aðildina að NATO, a.m.k.