Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að núverandi þjóðaröryggisstefna hafi skilað sínu. Hún er sem betur fer byggð á breiðum grunni, tók fyrir innrás Rússa í Úkraínu, tók á þessum fjölþáttaógnum að einhverju leyti. Það þarf eðlilega að efla og þroska það ferli enn betur með tilliti til grundvallarbreytinga sem hafa orðið á síðustu fimm árum en í heildina hefur þjóðaröryggisstefnan, sem Vinstri græn sátu hjá við afgreiðslu á, reynst okkur vel og verið gott tæki fyrir okkur til að sinna þessum málum ágætlega. Síðan 24. febrúar hefur grundvallarnálgun og afstaða gagnvart öryggis- og varnarmálum, og þar með talið þjóðaröryggi, breyst. Við megum ekki vera það viðkvæm í umræðu um þjóðaröryggi, að við getum ekki talað um öryggis- og varnarmál. Það eru allir sem betur fer sammála hér og mér heyrðist það í andsvörum áðan að það skiptir máli að taka á fjölþáttaógnum, á því hvernig við byggjum upp meira öryggi í umhverfi þegar kemur að loftslagsmálum og það má nefna fleira sem fellur undir þjóðaröryggisstefnuna. En ég held að við komumst ekki hjá því að horfast í augu við þann veruleika sem er gjörbreyttur eftir 24. febrúar í þá veru að við þurfum að fara í endurmat á öryggis- og varnarmálum okkar Íslendinga.

Mig langar að fara stuttlega yfir þessa punkta sem koma fram og vangaveltur af minni hálfu í tengslum við hina og þessa punkta sem koma fram í stefnunni. Þá má velta fyrir sér því sem segir í upphafinu: Við erum fámenn þjóð sem hefur hvorki vilja eða löngun til að ráða yfir her. Ég vona að við séum sammála um það. En þá þurfum við líka að segja hvort það sé nægilega skýrt og skorinort í stefnunni hvernig við tryggjum öryggi og varnir okkar án þess að vera með her, án þess að segja skýrt hvernig við ætlum að tryggja m.a. fjárframlög til öryggis og varna. Við höfum ekkert rætt það sérstaklega í tengslum við þetta hvert framlag okkar til varnarsamstarfs vestrænna ríkja á að vera út frá fjárlögum. Við gætum sett okkur metnaðarfull markmið og að einhverju leyti raunhæf líka að miða við hlutfall af þjóðarframleiðslu því núverandi framlög ná ekki 0,2% af landsframleiðslu eða innan við 10% af skuldbindingum okkar innan NATO, sýnist mér. Þó að við séum ekki með her þá er ýmislegt annað sem er hægt að gera og sem við þurfum líka að gera og herleysi fríar okkur ekki frá skuldbindingum okkar á ábyrgð þar, bara þannig að það sé sagt.

Aðildin að NATO ásamt varnarsamningi við Bandaríkin eru að sjálfsögðu hornsteinn öryggis og varna hér á landi. Í því samstarfi þarf Ísland að leggja sitt af mörkum með enn ríkari hætti en áður, svo sem með aukinni þátttöku okkar í friðargæslu og borgaralegum verkefnum NATO. Það þarf líka að tryggja það að greina öryggis- og varnarþarfir landsins heilt yfir og ég bið okkur um að vera ekki viðkvæm þegar kemur að þessum þætti. Það eru nýjar aðstæður. Það er nýr veruleiki sem við blasir, við verðum að sjá það og ég vona einfaldlega að þjóðaröryggisráð endurmeti öryggis- og varnarþarfir okkar þegar kemur að þessari hernaðarógn sem við blasir núna og til að tryggja líka okkar hernaðarlega öryggi.

Það má líka horfa til aukinnar samvinnu við Evrópusambandið, það kemur náttúrlega örugglega fáum á óvart að ég nefni þetta hér. En þegar við sjáum það í þjóðaröryggisstefnunni þá erum við að leggja fram ákveðna áherslupunkta, hvort sem er á sviði loftslagsmála eða mannréttinda. Við erum að tryggja þjóðaröryggi um leið til þess að tryggja grunngildi á borð við frelsi, lýðræði og mannréttindi. Ef við segjum að þetta sé hluti af þjóðaröryggisstefnunni hljótum við m.a. að líta til sambandsins sem hefur þetta að meginmarkmiði. Það var kjarninn að stofnun Evrópusambandsins að tryggja frið, frelsi, lýðræði og mannréttindi.

Endurmat á varnarstöðu okkar kallar líka á umræðu um stefnumótun og stjórnsýsluna að mínu mati sem snýr að öryggis- og varnarmálum. Það þarf að endurskoða verkaskiptingu milli ráðuneyta og skýra betur nákvæmlega hvar ábyrgðin, eða ábyrgðartakan, fer fram í öryggis- og varnarmálum. Það er ekkert alveg skýrt, ég er búin að spyrja um þetta á nokkrum fundum og fólk verður vandræðalegt. Er það utanríkisráðherra? Er það forsætisráðherra? Er það á grundvelli þjóðaröryggisráðs? Við þurfum að hafa það alveg skýrt hver það er ef til þess kemur, sem við vorum náttúrlega að verði ekki, hver það er sem virkjar varnaraðstoð Bandaríkjastjórnar eða eftir atvikum NATO.

Mig langar líka að velta fyrir mér skuldbindingum þeim sem Ísland hefur gert í ljósi yfirlýsinga um að landið verði björgunarmiðstöð fyrir önnur ríki á norðurslóðum. Þá hlýtur að koma þessi spurning hvort ríkisstjórnin ætli ekki að tryggja örugglega skuldbindingar um þyrluþjónustu vegna loftrýmisgæslu og annarrar yfirlýstrar aðstoðar, að þær skuldbindingar séu uppfylltar til frambúðar og með skilvirkari hætti en hingað til.

Ég vil líka draga fram það, eins ólíklegt og það kann að vera, að ef allir þrír sæstrengirnir fari þá held ég að við verðum líka að skoða hvaða innviðir munu detta út. Ég held að forsætisráðherra ætti að beina því til Fjarskiptastofu hver er þá lágmarksbandbreiddin sem þarf að vera til að tryggja lágmarksinnviði okkar Íslendinga. Við vitum það að gervihnettirnir sinna ekki nema brotabroti. Sæstrengirnir voru einmitt settir af stað út af því að gervihnettirnir ná ekki að sinna þessu en þeir geta sinnt lágmarki og ég veit að Isavia hefur haft þetta í huga. En ég tel rétt að við fáum að vita, ekki nema það liggi skýrt fyrir á vettvangi þjóðaröryggisráðs, hver lágmarksbandbreiddin eigi að vera til að tryggja innviðina.

Mig langar líka í tengslum við að það er verið að hnykkja á aðild Íslands að NATO og þátttöku okkar á borgaralegum forsendum að vita hvort það stendur til að efla þátttöku Íslands í borgaralegum verkefnum með meiri og með afgerandi hætti en verið hefur. Það þarf líka að tryggja að varnarsamningurinn við Bandaríkjastjórn taki með ótvíræðum hætti til netöryggismála. Við þurfum að taka upp þessa samninga við Bandaríkin. Við vitum að það er gott samstarf við Bandaríkin en þetta hefur ekki verið tekið upp og varnarsamningurinn hefur ekki verið tekinn upp eða viðbætur við hann til að hafa þetta skilyrði alveg skýrt, að hann taki til netöryggismála og þessara fjölþáttaógna, mikilvægi órofinna samgangna, birgðaflutninga og fólksflutninga sem og sæstrengja. Þetta þarf að vera alveg skýrt. Ég tek heils hugar undir það að við þurfum að efla og auka samstarf Norðurlanda þar sem þekking og reynsla stærri ríkjanna getur og hefur reynst okkur dýrmæt. En aukin ólga og vígbúnaðar á norðurslóðum mun óhjákvæmilega hafa áhrif á varnarhagsmuni Íslands og stöðu okkar á alþjóðavísu og mér finnst vanta örlítið skýrari stefnu og sterkari ákvörðun þegar kemur að þessum þætti. Það hefur margt breyst frá því 2016 þegar þessi þjóðaröryggisstefna var lögð til. Ég vil sjá enn meiri áherslu á varnar- og öryggishagsmuni þegar kemur að norðurslóðum.

Ég ætla kannski bara stikla á stóru af því það er svo lítill tími eftir, en ég tel mikilvægt að draga fram að í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, sem hefur gjörbreytt stöðu öryggis- og varnarmála í heiminum, þá sjáum við að hvert lýðræðisríkið á fætur öðru hefur mætt með endurmat á eigin vörnum og öryggi með auknu samstarfi sín á milli. Þau eru ófeimin að tala um auknar varnir og öryggi. Það er líka verið að tala um alla hina þættina en þetta kallar ekki síst á samstarf og samtal um varnarsamstarf landsins á alþjóðavísu og stefnu okkar til framtíðar. Við þurfum að dýpka þessar leiðir sem við höfum, varnarsamninginn, dýpka enn frekar þátttöku okkar innan NATO á borgaralegum og okkar forsendum og við þurfum líka að ræða aðrar leiðir, hvort sem það er Evrópusambandið eða aðrir þættir sem geta eflt öryggi okkar út frá hernaðarsjónarmiðum. Þá hlýt ég að benda á að við þurfum að efla líka og styrkja okkar þekkingu á hervörnum, á öryggis- og varnarmálum. En ég vil líka velta því upp hvort ekki standi til að tryggja hér fasta og staðfasta viðveru varnarliðs, sem ég hef reyndar ekki fengið nein svör um, annað en það að við vitum að Vinstri græn vilja alls ekki hafa staðfasta varnarveru. En síðan heyrum við á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þeir eru meira en til í að ræða þetta. Ég vil fá skýr svör við þessu. Ef við ætlum ekki að tryggja hér fasta og staðfesta viðveru varnarliðs, viðvarandi, sem felst mikill fælingarmáttur í, hvernig hyggst ríkisstjórnin styrkja varnir landsins að öðru leyti? Og að hvaða leyti hefur þessi aukna ólga og vígbúnaður á norðurslóðum áhrif á endurmat ríkisstjórnarinnar á varnarstöðu og varnarsamstarfi?

Það er margt gott í þessari stefnu en mér finnst við ekki vera að taka nægilega mikið tillit til þess harða veruleika sem við blasir í dag og er algerlega (Forseti hringir.) og alfarið ábyrgð Rússa. En þetta er veruleiki sem þarf að snerta betur á (Forseti hringir.) og við munum fara betur yfir í utanríkismálanefnd þingsins.